Nýjast á Local Suðurnes

Leggja 200 milljónir í rannsóknir í Hvassahrauni

Flugfélag Íslands er á meðal þeirra sem þyrftu að flytjast um set ef Hvassahraun yrði fyrir valinu.

Reykjavíkurborg og ríkið skrifuðu í dag undir samkomulag til tveggja ára um að standa straum af rannsóknum fyrir byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni.  Kanna á kosti þess að reisa þar og reka flugvöll sem myndi gegna hlutverki innanlandsflugvallar, varaflugvallar og flugvallar fyrir æfinga-, kennslu-, og einkaflug.

Hvor aðili um sig mun leggja hundrað milljónir króna í verkefnið. Gert er ráð fyrir að sveitarfélög á Suðurnesjum muni verða til samráðs um verkefnið. Þá kom fram á blaðamannafundi, sem sýndur var í beinni útsendingu á Vísi, að ákvörðun um nýjan millilandaflugvöll þarf að taka með að lágmarki þrettán til sautján ára fyrirvara og nýjan innanlands- og varaflugvöll með allt að fimmtán ára fyrirvara.