Nýjast á Local Suðurnes

Læknar á HSS nota frítíma í vinnu á öðrum stofnunum – Gæti valdið hagsmunaárekstrum

Læknar á heilsugæslu HSS nota margir hverjir frítíma sinn í vinnu á öðrum heilbrigðisstofnunum, en slíkt gæti valdið hagsmunaárekstrum að mati Landlæknis. Þessi möguleiki skapast vegna vaktakerfis HSS, en þar eru læknar á sólahringsvöktum, það fyrirkomulag veldur því einnig að hætta er á að ekki sé hægt að tryggja samfellda og heildstæða þjónustu.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í skýrslu hlutaúttektar á HSS sem unnin var af Landlæknisembættinu á dögunum. Þar segir að á heilsugæslunni séu 17,1 stöðugildi lækna og að mati stjórnenda stofnunarinnar vanti að minnsta kosti fimm stöðugildi ef vel á að vera. Þá segir einnig að læknar taki sólarhringsvaktir og því skapist mikill frítökuréttur sem aftur valdi því að töluverð hreyfing sé á læknum sem margir hverjir noti frítíma sinn í vinnu á öðrum stöðum – Það gæti, að mati stjórnenda, valdið hagsmunaárekstrum.

Þetta fyrirkomulag veldur því einnig að langur biðtími sé eftir tíma hjá sérstökum lækni og hætta á að ekki sé hægt að tryggja samfellda og heildstæða þjónustu. Að hluta til er reynt að manna heilsugæsluna með unglæknum og á sumrin einnig með læknanemum, til dæmis þeim sem stunda læknanám í Ungverjalandi. Við vinnslu skýrslunnar var stjórnendum HSS tíðrætt um hversu erfiðar margar vaktir læknanna eru og ekki allir sem þola þetta mikla álag og dæmi eru um að menn hafi hætt vegna álags og/eða kulnunar í starfi.