Nýjast á Local Suðurnes

Krefja BaseParking um 5 milljónir króna – Myndavélaeftirlit staðfestir brot á notkunarskilmálum

Isavia hefur, samkvæmt heimildum Suðurnes.net, krafið bílastæðaþjónustufyrirtækið BaseParking um fimm milljónir króna vegna ítrekaðra brota fyrirtækisins á notkunarreglum Isavia á skammtímastæðum við Keflavíkurflugvöll. Forsvarsmenn fyrirtækjanna tveggja hafi fundað vegna málsins en þeir fundir hafa ekki borið árangur, eftir því sem næst verður komist, og hefur fyrirtækið haldið uppteknum hætti.

Þá herma heimildir Suðurnes.net að yfir 70 bifreiðum í umsjá Base Parking hafi verið ekið út af stæðunum án þess að greiða fyrir notkun þeirra og að sumar hafið staðið þar í allt að þrjár vikur.

Bifreiðunum hafi náð út með því að aka einni bifreið að hliði við innganginn þar sem miði var takinn og keyrt inn á bílastæði, því næst var annarri bifreið, sem staðið hafði í lengri tíma á stæðinu keyrt út á sama miða. Fyrstu 15 mínúturnar eru fríar á stæðunum og því báru þessir miðar ekkert gjald. Misnotkunin kom í ljós við myndavélaeftirlit þar sem sást greinilega að starfsmenn fyrirtækisins voru að verki.

Milljónirnar fimm sem Isavia krefur fyrirtækið um eru annars vegar bílastæðagjöld að upphæð tvær milljónir króna og vanrækslugjald að upphæð þrjár milljónir króna. Isavia hefur áður gefið út að greiði fyrirtækið ekki umrædda upphæð verði eigendur bifreiðanna krafðir um greiðslu.