Nýjast á Local Suðurnes

Kortleggur herruslahauga á Suðurnesjum – Jörðuðu asbest á Stafnesi

Blaðamaðurinn Atli Már Gylfason vinnur nú að úttekt á umfangi ruslahauga á vegum Bandaríska hersins á Suðurnesjum. Bandaríski herinn greiddi íslenska ríkinu fyrir hreinsun á ákveðnum svæðum á Suðurnesjum undir lok veru sinnar hér á landi. Hreinsunin var að sögn Atla Más unnin af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, Kadeco.

Atli sagði í viðtali í morgunþættinum Harmageddon á dögunum að svo virðist sem ekki hafi verið vandað mjög til verka við umrædda hreinsun, en á meðal þess sem rannsóknir Atla hafa leitt í ljós er að Kadeco stóð fyrir förgun á asbesti. Samkvæmt heimildum Suðurnes.net var asbestið urðað á Stafnesi, en það er eitt af þeim svæðum sem Atli Már hefur kortlagt, meðal annars með aðstoð fyrrum starfsmanna varnarliðsins. Asbest er eitt mest krabbameinsvaldandi efni sem fyrir finnst í veröldinni.

Í viðtalinu kom fram að asbestið hafi verið urðað í pokum sem brotna ekki niður í náttúrunni og að gengið hafi verið tryggilega frá þeim. Þá greindi Atli frá því að unnið væri að því að græða upp landið þar sem pokarnir með hinum mengandi efnum voru urðaðir og færi sú aðgerð fram á vegum Kadeco.

Þá greindi Atli frá því að ákvæði í samningi Íslands og Bandaríkjanna sé á þann veg að Bandaríski herinn beri enga ábyrgð á því sem kemur upp á varðandi mengun að fjórum árum liðnum frá undirskrift samningsins. Nú eru sem kunnugt er liðin 10 ár frá brottför varnarliðsins og því er ábyrgð Bandaríkajnna engin á þeim málum sem upp kunna að koma.