Nýjast á Local Suðurnes

Kortleggja dreifingu ferðamanna – Reykjanesið fær lökustu einkunn

Mynd: Samsett Visit Reykjanes / Ferðamálastofa

Markaðsstofa Reykjaness, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og Heklan – Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja munu út þetta ár standa að verkefni sem snýr að könnun á ferðahegðun gesta á Reykjanesi. Þá verður einnig unnið að greiningu á eldri gögnum um erlenda ferðamenn. Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður tæplega fjórar milljónir króna og er verkefnið styrkt af Sóknaráætlun Suðurnesja.

Verkefnið er viðamikið og á meðal þess sem notast verður við er greining á gögnum frá fyrirtækinu Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar ehf um erlendra ferðamenn á Reykjanesi árin 2010-2018. Þá verða skoðaðar komur erlendra ferðamanna á Suðurnes, nýting gistinátta á svæðinu og rýnt verður í heimsóknartölur í Bláa Lónið frá árinu 2010 til dagsins í dag. Þá verða komur erlendra ferðamanna að Reykjanesvita, Garðskagavita og Álfubrúnni 2010-2014 greindar. Auk þessa verða lagðar fyrir spurningar til ferðamanna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í spurningavagninum Dear Visitor.

Þá verður haldið áfram að telja umferð ferðamanna á fjórum völdum áfangastöðum á Reykjanesi til að mæla fjölda og dreifingu þeirra um Reykjanesið.

Í umsögn um verkefnið í Sóknaráætlun Suðurnesja, sem styrkir verkefnið um tæpar fjórar milljónir króna, segir meðal annars að ljóst sé að aukning ferðamanna til landsins skapi gífurlega möguleika í atvinnumálum svæðisins. Nýta þarf þau tækifæri sem ferðaþjónustan skapar á svæðinu, til dæmis vegna nálægðar við höfuðborgina, Bláa lónið, Keflavíkurflugvöll og einstakar náttúruperlur a Suðurnesjum.

Heimsókn á Reykjanesið fær lökustu einkunn

Ferðamálastofa, Hagstofa Íslands og Isavia hafa undanfarin tvö ár staðið fyrir landamærakönnun á Keflavíkurflugvelli auk netkönnunar á meðal erlendra ferðamanna, en þar kemur fram að Reykjanesið fær lökustu einkunn þegar spurt er um upplifun ferðamanna eftir landssvæðum. Tæplega 60% þeirra erlendu ferðamanna sem heimsækja landið skoða sig um á Suðurnesjum.

Heimsókn á Reykjanes fær 4,38 í meðaleinkun af fimm mögulegum, en til samanburðar fær heimsókn á Suðurland 4,81 að meðaltali og heimsókn í höfuðborgina, sem er með næst lökustu einkunn, fær 4,42.

Tölur ferðamálastofu um heimsóknir og ánægju erlendra ferðamanna.