Nýjast á Local Suðurnes

Koma til móts við íbúa og atvinnurekendur

Bæjaryfirvöld í Grindavík hafa samþykkt aðgerðir í þágu íbúa bæjarins meðan heimsfaraldur Covid-19 stendur eða allt til loka maí þar til annað verður ákveðið.

Bæjarráð Grindavíkur fundaði í gær á vikulegum fundi en til umræðu voru m.a. aðgerðir vegna heimsfaraldurs Covid-19. Ráðið samþykkir að einungis sé greitt fyrir nýtta daga í leikskóla og skólaseli og leiðrétting verður gerð á næsta reikningi.

Þá samþykkir bæjarráð að greiðslur bæjarins til dagmæðra verða óskertar þrátt fyrir að dregið sé úr vistun barna. Jafnframt samþykkir bæjarráð að fella niður leigu hjá þeim dagmæðrum sem eru með starfsemi sína í húsnæði bæjarins.

Bæjarráð hefur falið sviðsstjóra félagsþjónustu- og fræðslusviðs að útfæra það að öll börn í grunnskóla fái mat þá daga sem þau sækja skólann í apríl.

Að lokum samþykkir bæjarráð að veita lögaðilum, sem þess óska og eiga í rekstrarerfiðleikum vegna tekjuskerðingar, frest á greiðslu fasteignagjalda án kostnaðar. Um er að ræða gjalddaga mars og apríl 2020 og mögulegur gjaldfrestur er út maí 2020.

Tekið skal fram að um fyrstu skrefi í aðgerðum er að ræða og mögulega þurfa bæjaryfirvöld að bregðast frekar við þegar fram líða stundir.