Nýjast á Local Suðurnes

Keilir býður upp á nám í iðntæknifræði til BS gráðu

Frá og með haustönn 2017 mun Háskóli Íslands í samstarfi við Keili bjóða upp á nýja námslínu í iðntæknifræði fyrir efna- og líftækniiðnað. Á undanförnum árum hefur verið mikill skortur á fólki með tæknitengda háskólamenntun og er námslínunni ætlað að mæta breyttum áherslum í atvinnulífinu og nýjum tækifærum tengdum nýsköpun, þróun og hönnun framleiðsluferla.

Nám í iðntæknifræði nýtist þeim sem vilja vinna við nýsköpun, störf tengd orku- og matvælaiðnaði, fullvinnslu sjávar- og landbúnaðarafurða, líftækni- og lyfjaiðnað, efnavinnslu og notkun á umhverfisvænum orkugjöfum. Námslínan leggur áherslu á efnafræði, efnaferla og líftækni og nýtist þekking nemenda meðal annars við hönnun, rekstur og viðhald á framleiðslubúnaði í efna- og líftækniiðnaði.

Þá nýtist námið þeim sem vilja vinna í orkufyrirtækjum, fyrirtækjum tengdum Auðlindagarðinum á Suðurnesjum (til að mynda CRI, Orf líftækni og Bláa lónið), Alvogen, Algalíf, Íslenskri erfðagreiningu og Matís, auk starfsemi í orkufrekum iðnaði.