Nýjast á Local Suðurnes

Keflavíkurhöfn verði viðleguhöfn fyrir skemmtiferðaskip – Stefnt á verulega fjölgun ferðamanna

Reykjaneshöfn hefur hafið vinnu við að markaðssetja Keflavíkurhöfn sem viðleguhöfn fyrir minni skemmtiferðaskip, eða skemmtiferðaskip sem bera allt að 300 farþega. Stefnt er að því að ná 1-3 skipum í viðskipti við hafnir á Suðurnesjum á þessu ári.

Verkefnið er meðal annars unnið í samstarfi við Isavia, rektraraðila Keflavíkurflugvallar og er í því samhengi horft til annars vegar að höfnin sé viðkomustaður skipa með farþega sem sækja í upplifun á svæðinu og hins vegar sem skiptistöð skipa sem nýta sér nálægðina við alþjóðaflugvöllinn á Miðnesheiði í tengslum við farþega- eða áhafnaskipti.

Við þessa markaðssetningu er jafnframt horft til hafnaraðstöðu í öðrum höfnum Suðurnesja, Grindavíkur- og Sandgerðishafnar, sem móttökuhafna ef veður á svæðinu sé með þeim hætti að innsigling til þeirra henti betur í það sinn heldur en innsigling til Keflavíkurhafnar.

Þá er hluti af þessari markaðssetningu að horfa til þess hvaða afþreying er í boði á svæðinu, bæði í nærumhverfi hafnarinnar sem og á Suðurnesjum í heild og því þarf að vinna með þjónustuaðilum á svæðinu að uppbyggingu „sölupakka“ með upplifum sem væri í boði fyrir farþega þessara skipa. Slíkir „sölupakkar“ myndu nýtast mun víðar en farþegum skemmtiferðaskipa, þar með talið í tengslum við flugstöðina og þá millilandafarþega sem þar þurfa að stopp í lengri eða skemmri tíma.

Verkefnið fékk þriggja milljóna króna styrk úr Sóknaráætlun Suðurnesja, en á meðal áætlunarinnar er að fá fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á svæðinu til að snúa bökum saman í kynningu svæðisins.