Nýjast á Local Suðurnes

Keflavíkurflugvöllur helst í flokki bestu flugvalla Evrópu – 15 milljarðar í framkvæmdir árlega

Fjölgun farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll hefur verið hröð undanfarin ár, en árið 2010 fóru rúmar tvær milljónir farþega um völlinn. Ef farþegaspá fyrir árið 2018, sem kynnt var á morgunfundi Isavia, gengur eftir mun farþegafjöldi hafa fjórfaldast á átta árum og ríflega tvöfaldast frá árinu 2015, en spá fyrirtækisins gerir ráð fyrir að 10,4 milljónir farþega muni fara um Keflavíkurflugvöll á næsta ári, 18% fleiri en á þessu ári. .

Margvíslegar áskoranir fylgja slíkum vexti og hefur Isavia staðið í tuga milljarða framkvæmdum til að mæta vextinum auk þess að fjölga starfsfólki mjög hratt. Áframhaldandi uppbyggingarskeið er í kortunum á flugvellinum og búast má við að Isavia muni framkvæma fyrir yfir 15 milljarða á ári næstu árin.

Þá kom fram á fundinum að þrátt fyrir þessa miklu fjölgun farþega hefur starfsfólki á Keflavíkurflugvelli tekist vel að halda uppi þjónustustigi, en niðurstöður ASQ kannana, sem eru samræmdar alþjóðlegar þjónustukannanir framkvæmdar á vegum alþjóðasamtaka flugvalla, voru kynntar á fundinum. Samkvæmt niðurstöðunum eru farþegar ánægðir með þjónustuna á Keflavíkurflugvelli og þó einkunnin hafi lækkað frá því sem best var, helst völlurinn í flokki bestu flugvalla í Evrópu hvað varðar þjónustugæði.