Nýjast á Local Suðurnes

Keflavíkurflugvöllur bestur í Evrópu – “Starfsfólkið kemur okkur í fremstu röð”

Keflavíkurflugvöllur var á dögunum valinn besti flugvöllur Evrópu í flokki flugvalla með færri farþega en 5 milljónir en verðlaunin eru veitt af alþjóðasamtökum flugvalla í Evrópu(ACI Europe). Verðlaunin eru veitt þeim flugvöllum sem þykja skara framúr í rekstri flugvalla en í samtökunum eru yfir 500 flugvellir í 45 löndum Evrópu. Meðal þeirra flugvalla sem hlutu verðlaunin í sínum stærðarflokki eru Glasgow flugvöllur, flugvöllurinn i Brussel og Heathrow í London. Voru verðlaunin afhent á ráðstefnu evrópskra flugvalla sem haldin var í Grikklandi og tók Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia við verðlaununum.

Verðlaunin eru veitt fyrir góðan árangur í flugvallarrekstri og er litið til þátta eins og þjónustu við farþega, uppbyggingu á mannvirkjum, umgjörð verslunar- og veitingasvæða, öryggisleit, samfélags- og umhverfismál, rekstur flugbrauta, flugumferðarstjórn og fjölda áfangastaða sem í boði eru. Dómnefndin tilgreindi sérstaklega að vel væri staðið að rekstri flugvallarins á sama tíma og gríðarleg farþegaaukning hefur orðið um flugvöllinn. Í dómnefndinni voru aðilar frá Eurocontrol, Ferðamálaráði Evrópu (Europeam Travel Commission), European Civil Aviation Conference (ECACA) auk fulltrúa frá flugvöllum víðsvegar um Evrópu.

Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia þakkar starfsfólki þennan frábæra árangur: “Á sama tíma og farþegaaukning um flugvöllinn er yfir 30% á ári þá er starfsfólk okkar að koma okkur í fremstu röð í samkeppni við aðra flugvelli. Álagið á vellinum er gríðarlegt út af þeirri aukningu sem hér hefur orðið og því afar ánægjulegt að hægt sé að viðhalda háu þjónustustigi á sama tíma. Fyrir Isavia er mikilvægt að flugvöllurinn sé í fremstu röð og dómnefndin hrósar okkur fyrir fjölmarga þætti í rekstri hans.“
Á síðustu árum hefur Keflavíkurflugvöllur hlotið fjölda viðurkenninga frá Alþjóðasamtökum flugvalla. Hann var valinn besti flugvöllur í Evrópu í þjónustu við farþega árin 2009 og 2014, og með bestu þjónustu í Evrópu í flokki flugvalla með undir 2 milljónir farþega árið 2011 og var auk þess valinn á heiðurslista Alþjóðasamtaka flugvalla í Evrópu árið 2014. Verðlaunin nú eru enn ein staðfesting á því frábæra starfi sem unnið hefur verið á flugvellinum á síðustu árum, bæði af hendi starfsmanna Isavia sem og annarra rekstraraðila á flugvellinum.