Nýjast á Local Suðurnes

Karpað um hringtorg á Hringbraut á Fésbókinni

Nokkrar umræður hafa skapast um nýtt hringtorg á gatnamótum Hringbrautar og Faxabrautar í umræðum í lokuðum  Facebook-hópi íbúa í Reykjanesbæ, Reykjanesbær – Gerum góðan bæ betri, en í færslu á síðunni óskar framkvæmdastjóri Umhverfissviðs sveitarfélagsins bæjarbúum til hamingju með umrætt hringtorg sem nýlega var tekið í notkun.

Hinu nýja hringtorgi er ætlað að hægja á umferðarhraða og losa um umferðarteppu sem getur myndast á Faxarbraut á álagstímum, auk þess að auka umferðaröryggi á þessum hættulegu gatnamótum.

Fjölmargir hafa tekið þátt í líflegum umræðum um hið nýja hringtorg, en þó flestir lýsi yfir ánægju með framkvæmdina eru þó nokkrir sem kvarta undan því að erfitt sé að aka stórum vöru- eða hópferðabifreiðum um hringtorgið. Þá er fólki bent á að um hringtorgið gildi almennar reglur um akstur í hringtorgum og allir hvattir til að sýna almenna tillitsemi og nota stefnuljós þegar ekið er um hringtorgið.