Nýjast á Local Suðurnes

Jólamarkaður Kompunnar opnar í dag – Mikil aðsókn undanfarin ár

Fjölsmiðjan rekur vinsælan nytjamarkað við Smiðjuvelli í Reykjanesbæ

Hinn árlegi jólamarkaður Kompunnar nytjamarkaðar opnaði í dag, fimmtudaginn 17. nóvember kl. 13:00. Á markaðnum kennir að venju ýmissa grasa af alls konar jólavarningi.

Starfsmenn Fjölsmiðjunnar taka á móti jóladóti allan ársins hring og þegar fer að líða að jólamarkaðnum eru vörurnar teknar fram skoðar, verðmerktar og flokkaðar. Undanfarin ár hefur verið mikil aðsókn að markaðnum og hægt að gera góð kaup, segir í tilkynningu.

Viðskiptavinirnir gera sér einnig grein fyrir því að með því að versla við Kompuna eru þeir í raun að láta gott af sér leiða, gera góðverk í anda jólanna, því Fjölsmiðjan sem rekur nytjamarkaðinn Kompuna er atvinnusetur ungs fólks sem kemur úr ýmsum aðstæðum á leið sinni út í lífið.

Að venju verður boðið upp á kakó og piparkökur og jólaandinn verður alls ráðandi fram að jólum í Fjölsmiðjunni.