Nýjast á Local Suðurnes

Jólagjafir fyrirtækja á Suðurnesjum – Allt frá sundkortum til utanlandsferða

Jólagjafir sem fyrirtæki og stofnanir gáfu starfsfólki sínu í ár voru af ýmsum toga og misjafnar að verðmæti. Gjafirnar voru allt frá inneignum í verslunum til utanlandsferða.

Grindavíkurbær hélt uppteknum hætti, en bærinn hefur undanfarin ár gefið starfsfólki sínu gjafabréf sem nota má í verslunum í sveitarfélaginu. Reykjanebær gaf starfsfólki sínu árskort í sundlaugar bæjarins, en bæjarstjórinn Kjartan Már Kjartansson sagði í jólakveðju til starfsfólks að þegar fjárhagsstaðan væri þröng skipti útsjónarsemi miklu máli og að gjöfin væri í þeim anda, auk þess sem um væri að ræða gjöf sem væri hvetjandi til vellíðunar og hreysti.

Rekstraraðili Keflavíkurflugvallar, Isavía, gaf starfsfólki sínu gjafabréf að verðmæti 15.000 krónur. Icelandair gaf sínu starfsfólki kjöt og konfekt auk sex þúsund króna gjafabréfs á hótelum fyrirtækisins.

Bankarnir gáfu starfsfólki sínu fínustu gjafir þetta árið. Íslandsbanki gaf pott frá Le Cruset og 25 þúsund króna gjafakort og Landsbankinn leyfði starfsmönnum að velja á milli matarkörfu, ferðatösku og jakka frá 66° norður.

Veglegustu gjöfina að þessu sinn gaf þó væntanlega Bláa lónið, en öllu fastráðnu starfsfólki var boðið, ásamt mökum, til Lundúna í byrjun mánaðar. Þá fékk starfsfólk jafnframt 40 þúsund króna gjafakort frá Landsbankanum og gjafapoka með snyrtivörum.