Nýjast á Local Suðurnes

JólaÁrni: Listamannalaun ættu ekki að vera fyrir metsöluhöfunda og fræga málara

Ég veit ekki alveg hversu hollt það er fyrir Framsóknarflokkinn að hafa Sigmund Davíð í þinghópnum. Ég efast um líka ágæti þess fyrir sjálfa þjóðina. Að það sé RÚV alfarið að kenna hvernig komið er fyrir honum sýnir vissan krankleika. Hann virðist ekki reiðubúinn að axla ábyrgð á lygum sínum upp í opið geðið á þjóðinni. Vera forsætisráðherra sem rýkur út úr sjónvarpsviðtali svo eitthvað sé nefnt. Við þekkjum öll atburðarrásina. Þá var hann spurður af fréttakonu hvers vegna hann mætir ekki til vinnu. Þá sprakk herrann. Það er auðvitað dónaskapur að fara fram á það að menn mæti til vinnu, eða hvað? Framsóknarflokkurinn er í skammarkróknum í stjórnarmyndunarviðræðum vegna Sigmundar og það hljóta bara að vera öfl innan flokksins sem vinna statt og stöðugt að því að koma honum út. Þegar einstaklingur telur sig stærri en flokkinn og yfir sönnunargögn hafinn þá er nú einhver krankleiki í gangi. Ég vona að Sigmundur snúi sér að einhverju öðru og gefi þjóðinni frið frá bullinu í sér.

arni arna keflavikurn

Það er ekki tekið út með sældinni að vera veðurfræðingur. Það fauk eitthvað í austfirðinga á dögunum þegar veðurfréttamaður í sjónvarpi stóð fyrir austfirðum eins og lagði sig allan tímann. Austfirðingurinn Eiður Ragnarsson las út úr veðurfréttunum að það gengi á með jakkafötum og hvítri skyrtu austanlands næstu daga. Eiður vill örvhentan veðurfræðing sem stendur þá fyrir vestfjörðum í von um að átta sig á veðrinu á austurlandi. Ég veit ekki hvort það hafi verið einhver lægð yfir austurlandi en menn voru nokkuð hvassir á netinu vegna þessa.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, talsmaður útgerðamanna ræddi sjómannaverkfallið í útvarpinu í vikunni. Hún færði „eðlileg“ rök fyrir því að sjómenn greiði 30% launa í olíukostnað skipa og 10% launa í skipum sem eru 3ja ára eða yngri. Já þetta er einfalt, þetta eru sameiginlegir hagsmunir beggja þar sem það er verið að halda á miðin að ná í sameiginlega auðlind. Já samkvæmt henni eiga sjómenn líka fiskinn í sjónum, þrátt fyrir að útgerðirnar hafi keypt veiðiheimildirnar. Ég missti soldið trú á þessari ágætu konu. Á móti henni í þættirnum var sjómaður sem benti á að laun sjómanna eru um 1 milljón á mánuði, þeir borga hlífðarfatnað og mat sjálfir ásamt olíu og kostnað við skipið. Hann benti á að þegar tímafjöldinn er tekin saman er sjómaður með rúmar 1200 krónur á tímann. Unglingarnir sem selja okkur snúða í bakaríum eru með 1500 kr. Þá heyrði ég gott dæmi varðandi olíukostnaðinn. Útgerð sem rekur eitt skip dró af sjómönnum 150 milljónir í olíukostnað á síðasta ári, en heildarolíukostnaður tímabilsins voru 10 milljónir. Útgerðin sat því eftir með 140 milljónir aukalega af launum sjómanna. Hver vill starfa við slík skilyrði spyr ég nú bara ?

Verð að viðurkenna að þegar ég sá fréttina um manninn sem át bara kartölfur í heilt ár og missti 50 kg. skaust upp í huga minn „konan sem kann bara að elda bjúgu.“ Sá skets Fóstbræðra kemur mér alltaf til að hlægja. En gaurinn át 3-4 kg af kartöflum á dag. Ég verð bara að viðurkenna að fyrsta sem kom upp í hugann var ógleði. Ég er svo klikkaður að ég sýð aldrei kartöflur, ástæðan er tvíþætt. Til hvers að skíta út heilan pott til að sjóða 1-2 kartöflur og sitja uppi með uppvaskið á helv…. pottinum. Annars vegar finnst mér gjósa upp moldarlykt við suðu á kartöflum. Já mér líður eins og ég sé með andlitið á kafi í kálgarði út í haga og vil ekki þessa lykt í íbúðina. Já ég ætti kannski að láta kíkja eitthvað á mig, en ég er orðinn vanur því að hafa kartöflulausar máltíðir þessi fáu skipti sem ég nenni að elda.

Heiðurslaun listamanna voru ákveðin í vikunni. Þar má sjá marga góða listamenn. Ég undrast samt að Erró þurfi á listamannalaunum að halda. Maðurinn er heimsfrægur og það er nú ekkert grín að fjárfesta í listaverkunum hans sem eru frábær. Hélt að þetta ræki sig sjálft og þessi listamaður hefur ekki verið búsettur hérlendis stóran hluta ævinnar. Þá er vinkona mín Vigdís Grímsdóttir á listanum. En eins og ég fjallaði um í síðustu viku fékk hún aukatekjur upp á 300 þúsund eftir vínarbrauðsferð í bakarí. Ég styð heilshugar listsköpun í landinu en hef alltaf litið svo á að þau ættu að vera fyrir unga listamenn sem eru að reyna að koma sér og sinni list á framfæri. Ekki fyrir metsölurithöfunda og fræga málara.

Ótrúlegt að píratar sem boða kerfisbreytingar í úreltu stjórnkerfi landsins, eins og þeir orða það, neiti að afnema ábyrgð ríkisins á lífeyrisskuldbindingum ríkisstarfsmanna. Þá spyr maður sig hvað er að marka yfirlýsingar um kerfisbreytingar? Vilja þau kannski ekki breytingar nema að þær séu lagðar fram í nafni pírata? En það er frábært hvað það er mikil ró yfir Alþingi um þessar mundir. Spurning að halda þessari ríkisstjórn bara fram á mitt næsta ár og sjá bara til, meira segja Steingrímur Joð sem nú er forseti Alþingis er að rembast við að vera málefnalegur. Það er varla að maður kunni við hann svona.

En kæru vinir, sem hafið lagt það á ykkur að lesa föstudagspistlana mína á árinu, ég þakka ykkur fyrir samfylgdina. Það er gott að fá viðbrögðin ykkar, margir hafa æst sig aðrir flissað, enda hef ég reynt að krydda þetta í von um að koma blóðrásinni af stað hjá mörgum. Þetta er síðasti föstudagspistillinn á árinu og nýr og ferskur birtist fljótlega á nýju ári. Ég óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Jólakveðja
Árni