Nýjast á Local Suðurnes

Íslendingar kunna ekki að spara

Ég heyri þessa fullyrðingu ansi oft í samtölum mínum um fjármálahegðun og kannski er hún rétt. Það getur vel verið að stór hluti landsmanna kunni ekki að spara. Mín tilgáta er að íslendingar kunna ekki að spara af því þeir kunna ekki að eyða peningum. Íslendingar taka lán í stað þess að spara fyrir freistingum sínum. Við meira að segja tökum lán fyrir daglegum útgjöldum þegar við notum kreditkort í matvöruverslun. Meira en helmingur landsmanna notar ekki heimilisbókhald eða nokkuð því líkt til að fylgjast með fjármálunum sínum. Flestir þeirra vita því ekki hvert peningurinn þeirra fer. Þetta fólk kann ekki að eyða pening. Peningurinn bara kemur og peningurinn bara fer. Engin hæfileiki fólginn í því.

Haukur Hilmarsson - Fjármálaráðgjafi

Haukur Hilmarsson – Fjármálaráðgjafi

Lítill hluti þjóðarinnar sækir sér aðstoð í fjármálum og þau sem sækja sér aðstoð eru flest of sein. Samkvæmt bandarískum ráðgjöfum í fjármálameðferð þá hefðu flestir sem til þeirra leita átt að panta fyrsta viðtal mörgum árum áður.

Ástæður þess að fólk sparar ekki er að mínu mati vegna þess að hvatinn í samfélaginu hefur hingað til verið lítill. Fjármál eru feimnismál og þeir sem eiga fullt af peningum eru litnir hornauga. Skynsamt fólk er líklegt til að fá á sig nörda- eða nískustimpil . En heildaryfirlit og skynsemi er samt eina leiðin til að eiga góð fjármál.

Ég á engan pening til að spara

Þetta viðhorf að geta ekki sparað heldur aftur af fólki að byrja að spara. Það upplifir að á meðan fjárhagsstaða þess er svona slæm þá taki því ekki að spara, það þurfi að nota hverja krónu í að lifa. En þegar fólk fer að safna upplýsingum og fá heildaryfirlit yfir fjármálin sín, til dæmis með Heimilibókhaldi Skuldlaus.is, þá fer það að geta endurskipulagt sig.

Þeir sem kunna að eyða pening eru þeir sem hafa yfirsýn, halda bókhald og velja hvert allur þeirra peningur fer áður en hann fer frá þeim. Þetta fólk velur vörur, þjónustu og verslanir byggt á yfirsýn og upplýsingum. Þau eyða skipulega og þau eyða í sparnað. Þau kunna að sleppa einhverju og spara í staðinn.

Fyrir stuttu mælti ég með að einstaklingur myndi hætta að nota debitkort og spara þannig allt að 30.000 krónur á ári sem annars færu í færslugjöld. Viðkomandi spurði mig strax til baka: “Hvað get ég svo keypt fyrir 30 þúsund á ári?” Skjólstæðingur minn er fastur í eyðsluhugsun og venjum. Hann kann ekki að eiga óeyddan pening, pening sem er verkefnalaus. Vandi þessa manns er hve erfitt er að standast freistingar þegar það er til peningur og vilja eyða sparnaðinum jafnóðum.

Sparnaður er ekkert annað en ógreidd útgjöld, peningur sem á eftir að eyða

Við þurfum að læra að spara eins og við lærum að spila á píanó eða aka bíl. Við notum upplýsingar og reynslu annarra til að temja okkur hegðunina að spila eða að aka bíl. Allir sem til þekkja vita að þeir sem æfa sig verða góðir ökumenn og þeir sem sem æfa sig verða góðir píanóleikarar. Enginn verður meistari í þessu við það eitt að lesa bók, reynsla og æfing er lykillinn.

Nokkar leiðir eru færar strax í dag. þau sem nota innkaupalista og skrá öll útgjöldin í heimilisbókhald finna breytingar á nokkrum dögum. Reynslan og hæfnin fæst aðeins með því að halda áfram að nota þessi verkfæri.

Skuldlaus.is er líka með póstlista og greinasafnið Sparikrukkan á heimasíðunni og er hún aðeins til þess að kenna okkur og hjálpa okkur að spara. Í hverri viku er birt grein með fræðslu og upplýsingum og áminningu um að bæta pening í sparikrukkuna. Smátt og smátt stækkar upphæð sparnaðar og eftir 52 vikur höfum við sparað 130.000 krónum.

Ekki geyma það að spara