sudurnes.net
Isavia styrkir björgunarsveitirnar veglega - Setja upp búnað til að bregðast við hópslysum - Local Sudurnes
Á næstu þremur árum munu Isavia ohf. og Slysavarnafélagið Landsbjörg sameinast um að bæta verulega búnað sem auðveldar björgunarsveitum víða um land að bregðast við hópslysum sem hugsanlega verða á þjóðvegum landsins, utan alfaraleiðar eða við vinsæla ferðamannastaði. Samningur þess að lútandi var undirritaður í dag. Útbúnar verða sérstakar kerrur með sérhæfðum búnaði sem björgunarsveitir geta með lítilli fyrirhöfn tekið með sér á slysstað. Isavia leggur 12 milljónir króna á ári til verksins, samtals 36 milljónir króna. Slysavarnafélagið Landsbjörg sér um að velja búnaðinn, hanna kerrurnar og velja þeim stað miðað við hugsanlega hættu á hópslysum og þar sem viðbragð er takmarkað. Búnaðurinn í kerrunum miðast við að björgunarsveitafólk geti veitt skjól og aðhlynningu á slysstað utan alfaraleiðar á stöðum þar sem langt er í heilbrigðisþjónustu og aðrar bjargir. Við val á staðsetningu kerranna verður tekið mið af fjölda ferðamanna, viðbragðsaðilum á viðkomandi svæði, áhættugreiningu almannavarna og hópslysaskýrslu Isavia. „Björgunarsveitirnar eru með starfsstöðvar víða um land og eru oft fyrstu viðbragðsaðilar á vettvang slysa utan alfaraleiðar og því tilvalinn samstarfsaðili í verkefni sem þetta,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. Framlag Isavia nær til hönnunar og smíði kerranna og til kaupa á þeim búnaði sem í þeim er. Annar kostnaður [...]