Nýjast á Local Suðurnes

Isavia eykur fyrstu hjálparþjónustu – Slysum hefur fjölgað með fjölgun farþega

Isavia, rekstraðili Keflavíkurflugvallar, mun á næstunni auka þjónustu við flugfarþega sem leið eiga um völlinn varðandi fyrstu hjálp, ef slys eiga sér stað í flugstöðinni. Starfsfólk flugvallarþjónustu Isavia hefur undanfarið fengið þjálfun í að sinna þessum störfum, sem áður voru í höndum Brunavarna Suðurnesja. Með þessu er stefnt að því að stytta viðbragðstíma, komi slys eða veikindi upp í flugstöðinni.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia segir bráðatilfellum hafa fjölgað í takt við fjölgun farþega um völlinn og að þetta sé liður í að auka við þá þjónustu sem Brunavarnir Suðurnesja hafa sinnt.

“Það sem er að gerast er að núna verðum við með þjálfað starfsfólk úr flugvallarþjónustunni á vakt inni í flugstöðinni til að sinna fyrstu hjálp eða annarri aðhlynningu á staðnum þangað til sjúkrabíll kemur, ef eitthvað kemur upp á.” Seigir Guðni. “Þetta er aukin þjónusta við farþega tilkomin vegna þess að tilvikum þar sem eitthvað kemur upp á, hvort sem það er slys eða veikindi, hefur fjölgað með fjölgun farþega.”