Nýjast á Local Suðurnes

Íhuga að skilja á fjórða tug farþega eftir á Íslandi vegna veðurs

Farþegar úr tveimur flugvélum sem lentu á Keflavíkurflugvelli í morgun sitja fastir í vélunum og þurfa að bíða þangað til veður lægir, en mjög hvasst er á vellinum. Þá íhuga flugmenn WOW-air hvort skilja eigi á fjórða tug farþega sem ekki komust um borð í vél félagsins vegna veðursins eftir á Íslandi.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í samtali við DV að landgangarnir séu ekki í notkun eins og er vegna veðurs: „Það er af öryggisástæðum sem við gerum það þegar vindhraðinn fer yfir 50 hnúta.“  Það eru 25 metrar á sekúndu.

Flugvél WOW Air á leið til Barcelona bíður á flugvellinum í Keflavík á meðan flugmaður tekur ákvörðun um hvort vélin eigi að fara á loft og skilja 38 farþega eftir á Íslandi eða bíða til kl. 14 eftir því að veðri lægi. Farþegi um borð í vélinni segir í samtali við DV að vélin hafi átt að fara í loftið kl. 7 í morgun, farþegar fóru um borð í morgun í gegnum göng en vindurinn hafi verið það mikill að flugvélin hafi þurft að færa sig frá göngunum áður en allir voru komnir um borð.