Nýjast á Local Suðurnes

IGS útbýr íbúðir fyrir 80 erlenda starfsmenn í Garði

Um 80 erlendir starfsmenn flugþjónustufyrirtækisins IGS munu búa í Garði, en fyrirtækið er um þessar mundir að standsetja húsnæði sem áður var dvalarheimili aldraðra. Nesfiskur keypti húsnæðið eftir að það var auglýst til sölu, en leigir það áfram til IGS.

Ekki er langt síðan fyrirtækið festi kaup á þremur fjölbýlishúsum á Ásbrú í sama tilgangi, en þar búa um 150 erlendir starfsmenn fyrirtækisins. Gunnar Olsen, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir í samtali við Vísi.is að lítið mál sé að fá erlent vinnuafl til landsins, en að erfitt sé að finna húsnæði á svæðinu.

„Við keyptum þrjár blokkir uppi á Ásbrú nýlega. En það dugar bara ekki til. Við þurfum að finna aðstöðu langt umfram það.“