Nýjast á Local Suðurnes

Íbúar hefðu átt að láta í sér heyra fyrr – Yfir 60% voru hlynntir uppbyggingu í Helguvík

Miklar umræður spunnust á íbúafundi vegna ófyrirséðrar mengunar frá kísilveri United Silicon sem haldin var í Stapa á miðvikudag, og ljóst er að íbúar hafa áhyggjur af framtíðinni í ljósi þess að nú hefur aðeins einn ofn af átta fyrirhuguðum hjá tveimur verksmiðjum verið ræstur.

Fulltrúar úr bæjarstjórn Reykjanesbæjar bentu á að lengi hefur verið stefnt að iðnaðaruppbyggingu í Helguvík og ljóst að þær verksmiðjur sem fyrirhugað væri að reisa þar og eru að rísa muni verða mengandi. Íbúar hefðu geta látið í sér heyra fyrr þegar deiliskipulag var í auglýsingu og kynningu, en fáir hafi hins vegar sýnt málinu áhuga. Nú kalli íbúar eftir mjög róttækum breytingum, svo sem lokun verksmiðjunnar og stöðvun á frekari framkvæmdum, en slíkt brjóti í bága við gerða samninga.

Keilir vann skýrslu um áhrif stóriðju á Suðurnesjum fyrir Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum árið 2013. Sú skýrsla sýnir að á þeim tíma voru yfir 60% hlynntir byggingu kísilvers í Helguvík og tæplega 70% voru fylgjandi frekari álversuppbyggingu. Skýrslan er aðgengileg hér.