Nýjast á Local Suðurnes

Íbúakosning vegna deiliskipulags í nóvember – Niðustaðan verður ekki bindandi

Rafræn íbúakosning vegna breytinga á deiliskipulagi í Helguvík mun fara fram í síðari hluta nóvember. Þetta var ákveðið á fundi bæjarráðs í gær. Bæjarráð samþykkti einnig að kosningin verði ekki bindandi.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að undirbúa íbúakosninguna. Þá samþykkir bæjarráð einnig að  óska eftir því við ráðherra að íbúakosningin fari eingöngu fram með rafrænum hætti og að kjörskrá vegna kosninganna verði á rafrænu formi. Þá er lagt til að kosningin fari fram á tímabilinu frá 8. til 20. nóvember nk. og standi í 10 daga og að miðað verði við 18 ára aldur kjósenda. Þá er samþykkt að niðurstaða kosninganna verði ekki bindandi, segir í bókun bæjarráðs.

Eins og kunnugt er stendur til að reisa kísilverksmiðju í Helguvík en hópur íbúa sem berst gegn frekari stóriðju efndi til undirskriftasöfnunarinnar. Rúmlega 25% íbúa skrifuðu undir, eða alls 2697 einstaklingar. Þar með var 25% lágmarkinu náð sem Reykjanesbær gerir kröfu um vegna íbúakosninga.