Nýjast á Local Suðurnes

Í Reykjanesbæ búa17.000 íbúar en aðeins einn er heimilislaus – Heimildarmynd!

Njarðvíkingurinn Elfar Þór Guðbjartsson hefur nýlokið við gerð heimildarmyndar um eina heimilislausa manninn í Keflavík, Didda. Í myndinni, sem er lokaverkefni Elfars Þórs við Kvikmyndaskóla Íslands, er Didda fylgt eftir þar sem hann gengur um götur Keflavíkur, hittir mann og annan auk þess sem hann lýsir aðstæðum sínum og segir sögur af sér og samferðamönnum sínum.

Elfar Þór segir hugmyndina að myndinni hafa kviknað þegar hann var að velja sér lokaverkefni í kvikmyndaskólanum, en Didda kynntist hann fyrir um áratug síðan og hefur alltaf fundist hann vera afar áhugaverð persóna.

“Ég hef þekkt Didda í meira en 10 ár, og hefur alltaf fundist hann vera áhugaverður einstaklingur og þar sem lokaverkefnið mitt í kvikmyndaskólanum á síðustu önn var að gera heimildarmynd þá kom eiginlega ekkert annað til greina en að fjalla um þessa áhugaverðu persónu sem hann Diddi er.” Sagði Elfar Þór í spjalli við Suðurnes.net.

Þá segir Elfar Þór stefnuna vera setta á að gera ítarlegri heimildarmynd um Didda, og þá sérstaklega árin þegar hann var í hljómsveitinni Bonjor Mammon.

“Við erum að stefna að því að gefa út mynd í fullri lengd á næsta ári. Þar munum við fara dýpra inní hver hann er og hvað leiddi hann hingað. Og þá aðalega langar mig að fara í tíma hljómsveitar hans sem myndin er skírð eftir Bonjour Mammon.” Sagði Elfar Þór.

Hér fyrir neðan má sjá heimildarmyndina Bonjour Mammon: