Nýjast á Local Suðurnes

HSS vantar lækna og fjármuni til tækjakaupa – Raunhækkun í fjárlögum aðeins 1% á milli ára

Halldór Jónsson forstjóri Heilbrigðisstonunar Suðurnesja (HSS) mætti á fund stjórnar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) og greindi frá helstu verkefnum stofnunarinnar, fór yfir fjölgun íbúa, samsetningu þeirra með tilliti til aldurs og uppruna.  Fór forstjórinn jafnframt yfir skiptingu verkefna hjá HSS.

Fram kom í máli forstjórans að gert sé ráð fyrir að fleiri sérfræðilæknar komi til starfa 1. febrúar næstkomandi og að búið sé að fullmanna sálfélagslegt teymi hjá stofnuninni. Auk þess kom fram í máli forstjórans að stofnunin hefur hafið samtal við Reykjanesbæ um samþættingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu og að vonir standi til þess að hægt verði að ræða við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum í framhaldi. Hins vegar sé staðan sú að vöntun sé á læknum, hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum á landsvísu. Húsnæðismál stofnunarinnar eru ekki góð og einnig vantar fjármuni í endurnýjun tækja.

Ljóst er að fjármunir til stofnunarinnar hafa ekki á nokkurn hátt fylgt fjölgun íbúa á svæðinu. Fjölgun íbúa á Suðurnesjum frá 1.1.2016 til 31.12.2017 er nálægt 15% en í fjárlögum ársins 2018 er í reiknuð raunhækkun til HSS aðeins 1%.

Á fundinum var framkvæmdastjóra SSS falið að koma þeim skilaboðum til heilbrigðisráðherra að fjárlög til heilbrigðismála á Suðurnesjum séu ekki takt við fjölgun íbúa á svæðinu og nauðsynlegt sé að taka tillit til þess við útdeilingu fjármagns. Framkvæmdastjóri SSS hefur þegar óskað eftir fundi með ráðherra.