Nýjast á Local Suðurnes

Hrósar félagsþjónustu þrátt fyrir heimilisleysi: “Hlýtur að þurfa sterk bein til að vera þau”

Innri - Njarðvík

Sigrún Dóra Jónsdóttir lítur björtum augum fram á veginn, þrátt fyrir að hafa misst leiguíbúð sína eftir að hún var seld leigufélagi. Engin úrræði voru í boði fyrir Sigrúnu Dóru og tvö af fjórum börnum hennar á vegum félagsþjónustu Reykjanesbæjar, en Sigrún ber starfsmönnum þó vel söguna í pistli sem hún ritar á Facebook.

“Í minni baráttu, þessari sem annari hef ég aldrei nokkurntíma fundið fyrir né haldið að einn einstaklingur vilji mér illt né vilji ekki hjálpa mér. Síðustu daga hef ég hreinlega lagt mig fram við að hrósa þessum einstaklingum sem að mínu máli koma fyrir vinsemd. Þar að auki komið því á framfæri að þau eru að vinna vinnuna sína og það hlýtur að þurfa sterk bein til að vera þau.” Segir Sigrún Dóra í pistlinum.

Sigrún Dóra sagðist í samtali við Suðurnes.net hafa fengið inni hjá vinkonu sinni, en það er þó einungis tímabundin lausn. Sigrún segir einnig að eitthvað jákvætt hafi komið út úr þessu máli þó það hafi ekki endað á besta veg.

“Umræða, vitundavakning, hrós til fólks sem þarf á því að halda, hvatning til samstöðu og náungakærleiks er það jákvæða og góða sem kom út úr þessu máli.” Segir Sigrún Dóra.

Sigrún Dóra sagði í samtali við Suðurnes.net að hún hafi ekki trúað að málin myndu enda á þennan veg og því sé ástandið á búslóð hennar á þann veg að fólk á vegum opinberra aðila þurfi að sjá um að koma henni fyrir í geymslu. Hún vill því koma á framfæri þökkum til þeirra sem hafa aðstoðað hana við málið og þá sérstaklega því fólki sem þarf að sjá um að tæma íbúðina.

 

“Mig langar persónulega að biðja fulltrúa sýslumanns, löggjafarvaldið og það fólk sem þarf að vinna þá ömurlegu og sorglegu vinnu að pakka búslóðinni minni niður, bera hana, keyra og koma fyrir í geymslu afsökunnar.

Mig langar að allir sem að þessum lokapunkti mínum koma viti að mér er ekki sama. Ég vill viðurkenna að ég hef gert mörg mistök. Mig langar að þau viti að ég gerði þetta ekki viljandi. Ég barðist fram að síðasta moldardropanum á grafarbakkanum og neitaði að trúa þessu. Þess vegna er ástandið á búslóðinni ekki betra. Ég vill þau viti að ég var að berjast, upplýsa aðra, aðstoða við fréttaflutning og upplýsingaöflun fyrir alla sem eru húsnæðislaus í Reykjanesbæ.

Mig langar að þetta fólk líti á að þau séu ekki að vinna skítavinnu fyrir einhverja illa innrætta manneskju, þau fá laun og á sama tíma hafa hjálpað til við að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur.” Sagði Sigrún Dóra.