Nýjast á Local Suðurnes

Hluthafar Heimavalla græða á hækkun leiguverðs – “Fá hlutinn á silfurfati fyrir að keyra upp leiguverð”

Hluthafar eignarhaldsfélagsins Heimavalla GP, sem sá um umsýslu eigna fyrir leigufélagið á árunum 2015 til 2017, gætu fengið afhentan endurgjaldslaust hlut í Heimavöllum hf. fyrir að jafnvirði um 400 milljónir króna við skráningu félagsins á hlutabréfamarkað, samkvæmt heimildum Markaðarins. Félagið keypti yfir 700 íbúðir á Suðurnesjum árið 2016, eða á því tímabili sem um ræðir og tilkynnti leigjendum sínum um tugþúsunda króna hækkun á leiguverði strax eftir kaupin.

Áður hafa hluthafar Heimavalla GP fengið í sinn hlut, á grundvelli umsýslusamnings við Heimavelli slhf., fyrrverandi móðurfélag Heimavalla hf., þóknanagreiðslur upp á samtals um 480 milljónir vegna ráðgjafarstarfa sinna fyrir leigufélagið frá því í ársbyrjun 2015 til október 2017.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR hefur óskað eftir því við félagsmenn VR að þeir sendi afrit af bréfum þar sem tilkynnt er um hækkanir á leigu, en hann telur hlutinn í félaginu vera árangurstengda greiðslu fyrir að keyra upp leiguverð á fákeppnismarkaði.

“Nú gefst útvöldum hópi kostur á 400 milljóna króna hlut á silfurfati sem árangurstengd greiðsla fyrir að keyra upp leiguverð á fákeppnismarkaði þar sem skelfilegt ástand á húsnæðismarkaði hefur skapast, vegna lítils framboðs, og hefur keyrt upp fasteignaverð og þar af leiðandi fasteignamat og á endanum eignir félagsins.” Segir Ragnar Þór meðal annars á Facebook-síðu sinni.