Nýjast á Local Suðurnes

Hjólreiðastígur frá Reykjanesbæ að Flugstöð malbikaður

Nú standa yfir framkvæmdir við malbikun á hjólreiðastíg sem liggur frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar til Reykjanesbæjar, verkinu miðar vel og er áætlað að stígurinn verði klár til notkunnar í október ef allt gengur að óskum, að sögn Guðlaugs Helga Sigurjónssonar sviðsstjóra Umhverfissviðs Reykjanesbæjar.

Sá hluti stígsins sem nú er í vinnslu liggur frá Reykjanesbraut að Flugstöð. Gangbraut mun koma yfir Reykjanesbraut í framhaldinu og stígurinn halda áfram meðfram Rósaselsvötnum og inn á Vesturgötu við Eyjavelli. Gamlir stígar við vötnin verða nýttir við gerð hjólastígsins, að sögn Guðlaugs Helga.

„Með því að tengja Reykjanesbæ við Flugstöð með göngu- og hjólastígum er ekki einungis verið að auka þjónustu og öryggi þeirra fjölmörgu íbúa  sem starfar í eða við Flugstöðina heldur stórbæta öryggi þeirra ferðamanna sem sem kjósa að hjóla um landið. Hugmynd okkar er síðan að halda áfram og tengja Reykjanesbæ og Voga saman yfir gömlu þjóðleiðina við Stapa. Þar með er stóri hluti Reykjanesbrautar farinn út sem hjólaleið fyrir ferðamenn því hægt er að fara áfram úr Vogum í gegnum Vatnsleysu að Straumsvík sem er bæði fallegri hjólaleið og öruggari,” segir Guðlaugur Helgi.