Nýjast á Local Suðurnes

Helgi Jónas slær í gegn með bók um Metabolic – Fæst frítt á Amazon

Helga Jónas Guðfinnsson þekkja flestir Suðurnesjamenn sem körfuknattleiksleikmann og þjálfara en síðustu ár hefur hann snúið sér að annarskonar þjálfun en körfubolta. Helgi hannaði sitt eigið þjálfunarkerfi sem kallast Metabolic sem er stundað víða um land og nú virðist það vera að ná vinsældum fyrir utan landssteina, ef marka má lista Amazon yfir best seldu bækurnar um hreyfingu.

Bókin er sem stendur í 446. sætinu á Kindle-bókalista Amazon, sem verður að teljast frábær árangur en vel yfir milljón titlar eru í boði fyrir Kindle á Amazon. Til gamans og samanburðar má geta þess að söluhæsta bók Arnaldar Indriðasonar fyrir Kindle er í sæti númer 12.819.

Bókin sem um ræðir heitir “Where fit happens” og er eftir Helga Jónas og Greg Justice, og fjallar um Metabolic og HITT (High Intensity Interval Training). Sem í grófum dráttum má lýsa sem tímasettri stöðvaþjálfun. Í samtali við karfan.is segir Helgi að bókin hafi orðið til alveg óvart:

„Það er ekkert leyndarmál að ég hef gríðarlegan áhuga á þessu viðfangsefni. En bókin sem slík kom mjög óvænt upp. Ég var að biðja um aðstoð með allt annað verkefni en þá stakk Greg Justice vinur minn uppá því að hvort við ættum ekki bara að gefa út bók saman.”

Vert er að taka fram að yfir 17.000 bókatitlar eru í boði undir flokknum “hreyfing” á Amazon.com – Bókin er í boði á Kindle á Amazon og hægt að sækja hana frítt tímabundið.