Nýjast á Local Suðurnes

Hegðun fólks í hagsveiflum

Kreppur koma og fara – aftur og aftur. Í sögulegu samhengi hafa 20 kreppur gengið yfir Ísland á síðustu 140 árum eða að meðaltali á sjö ára fresti (1). Efnahagskerfið okkar gengur í hringi rétt eins og svo margt annað í okkar lífi. Við gætum líkt þessu ferli við árstíðirnar og  góðæri, kreppa, uppsveifla og samdráttur verður okkar efnahagslegu sumur, vetur, vor og haust. Öll endurtekin hringrás skapar venjur og við hegðum okkur mismunandi eftir því hvar við erum stödd í ferlinu. Við eigum aðrar venjur að sumri en að vetri og lundarfar okkar er annað að vori en að hausti.

Hegðun okkar er í grófum dráttum þannig að við eyðum þegar við erum örugg og höldum að okkur höndum þegar við eru óörugg.

Haukur Hilmarsson - Fjármálaráðgjafi

Haukur Hilmarsson – Fjármálaráðgjafi

Þessar endurteknu aðstæður í efnahagskerfinu getum við notað til að meta hvenær til dæmis næsta kreppa er væntanleg. Samkvæmt rannsóknum dr. Dan Geller (2) aðlagar fólk sig að fjórum stigum efnahagshringrásarinnar með því að endurtaka sex fjármálahegðunarmunstur – 3 tengd eyðslu og 3 tengd aðhaldi.

Langa megrunin

Í kreppu förum við í megrun, langa megrun. Við höldum að okkur höndum með því að sleppa öllum stóru hlutunum. Við kaupum okkur ekki nýja bíla eða stór heimilistæki eins og sjónvarp eða þvottavél. Við látum það sem við eigum duga og skiptum ekki út fyrr en við erum neydd til þess eins og þegar þvottavéllin eða bíllinn gefa upp öndina og það er of dýrt að laga það.

Litlu verðlaunin

Á sama tíma og við neitum okkur um stóru hlutina í löngu megruninni þá verðlaunum við okkur með litlum verðlaunum. Litlu verðlaunin eru alls kyns kaup þar sem við eyðum ekki um of, en nóg til að upplifa jákvæða tilfinningu. Dæmi um litlu verðlaunin voru jólagjafir árið eftir bankahrun en þá mælti Rannsóknasetur verslunarinnar með að gefa „jákvæðar upplifanir“ (3).

Neyslutogstreita

Við förum í gegnum neyslutogstreitu þegar við finnum fyrir breytingum í hagsveiflum. Þegar við finnum fyrir fyrstu skrefum efnahagsbata eða efnahagssamdráttar þá finnum við fyrir þessari togstreitu á milli þess hvort við eigum að eyða peningum eða spara. Í þessari innri valdabaráttu reynir mikið á sjálfstjórn okkar og hæfileikan til að standast freistingar og við spyrjum okkur spurninga eins og  „Á ég að kaupa þennan flatskjá eða bíða og sjá hvernig efnahagsbreytingarnar þróast?“

Hallarbylting

Þegar uppsveiflan er orðin staðreynd og við stefnum inn í góðærið verður hallarbylting. Löngu megruninni er lokið og fólk fer að uppfæra eigur sínar og fegra heimilið. Sala raftækja eykst og fólk fer að yngja upp bílaeign sína. Og svo tekur húsnæðismarkaður við sér. Þessi tími er oft kallaður “lífsgæðakapphlaupið” þar sem fólk velur bíla, heimili og vörur sem færa þeim ákveðnari og betri ímynd og stöðu í samfélaginu.

Vaxtakeppnin

Hluti af lífsgæðakapphlaupinu er að ávaxta fé sitt og eigur betur. Á góðæristímum er mikið úrval af tilboðum um fjárfestingar og því meira traust sem fólk hefur á góðærinu því meiri áhættu tekur fólk í fjárfestingum sínum. Það eru mestar líkur á yfirskuldsetningu á þessum tíma því að „þetta reddast“ hugarfar getur orðið ríkjandi. Einnig vegna þess að lánamöguleikar eru opnari og fleiri hjá fjármálafyrirtækjum á góðæristímum (4). Þekkt er að fólk gangi fram úr hófi og hagræði greiðslugetu til að standast greiðslumat eða fá lán samþykkt. Til dæmis með því að skrá eignir eins og bíla yfir á aðra eða fá lánaðar upphæðir frá ættingjum á meðan greiðslumat fer fram (5). Líklegra er að veðhlutfall húseigna fari upp í 100% og að aukning verði í kaupum á dýrum bílum á lánum. Vaxtakeppnin er „best, fottast og nýjast“ keppnin.

Peninginn undir koddann

Þegar góðærinu líkur verður niðursveifla. Í niðursveiflu fellur eftirspurn á vörum og þjónustu því fólk fer í togstreitu um hvort það eigi að eyða pening eða spara ef niðursveiflan verður dýpri. Margir bregðast við niðursveiflu með því að vilja koma eignum sínum í öruggt skjól. Ef traust fellur gagnvart bönkum þá tekur fólk peninga sína af læstum reikningum og sjóðum og í versta falli tekur sparifé sitt út. Þetta er kallað áhlaup á bankana (6). Einnig verður vart við að fólk eigi ekki aðgang að lausafé því margt af neyslunni var drifið áfram á lánum, kreditkortum og yfirdrætti á góðæristímanum (7). Fólk losar sig við eignir sem seljast illa í niðursveiflum og kreppum, svo sem dýra og eyðslufreka bíla, tjaldvagna og þess háttar (8).

Í framhaldi af niðursveiflum erum við aftur komin í löngu megrunina og hringrásin hefst á ný.

Heimildir: