Nýjast á Local Suðurnes

Hefurðu áhyggjur af velferð barns? – Barnaverndarnúmerið 112

112 dagurinn er haldinn ár hvert um allt land. Almenningi verður boðið að hitta starfsfólk og sjálfboðaliða viðbragðsaðila neyðarlínunnar við Reykjavíkurhöfn og í Hörpu á milli kl. 13:00 og 16:00, þar sem meðal annars forsetanum verður bjargað úr Reykjavíkurhöfn. Dagurinn er einnig ætlaður til þess að kynna 112 fyrir börnum og fullorðnum en númerið er fyrir almenning til að koma tilkynningum á framfæri til barnaverndaryfirvalda um allt land.

Ef þú hefur áhyggjur af velferð barns ber þér skylda til að tilkynna til barnaverndarnefndar. Margir upplifa óöryggi varðandi hvort eigi að tilkynna eða ekki, hvort málið sé nógu alvarlegt eða hvort verið sé að búa til óþarfa vandamál. Það er hlutverk barnaverndar að kanna málið og meta hvort þörf sé á aðstoð. Mikilvægast er að upplýsingarnar berist barnavernd ef grunur er um að aðbúnaður barns sé óásættanlegur og þín tilkynning getur skipt sköpum.

Þú getur haft samband við starfsmenn barnaverndar á opnunartíma Þjónustuvers Reykjanesbæjar, frá kl. 9:00-16:00, alla virka daga. Einnig getur þú tilkynnt í gegnum neyðarlínuna 112, sem er alltaf opin og starfsmenn þar koma áhyggjum þínum á framfæri við barnavernd. Það er einnig hægt að skrifa bréf og/eða tölvupóst til starfsmanna barnaverndar. Netföng starfsmanna barnaverndar er að finna á heimasíðu Reykjanesbæjar. Almenningur getur óskað eftir að tilkynna undir nafnleynd.

Starfsmenn barnaverndar taka ákvörðun innan 7 daga um hvort hefja skuli könnun á málinu, út frá þeim upplýsingum sem þú hefur greint frá. Ef tilkynningin er talin alvarleg er hafin könnun máls. Rætt er við foreldra og barn til þess að fá frekari upplýsingar um aðstæður fjölskyldunnar. Þá er einnig rætt við aðra aðila sem koma að barninu, svo sem leikskóla og skóla. Að könnun lokinni er lagt mat á stuðningsþörf fjölskyldunnar. Ef ekki er talin þörf á stuðningi er málinu lokað hjá barnavernd. Ef þörf er á stuðningi er gerð áætlun um meðferð máls með foreldrum, og barni, þar sem fram kemur hvaða stuðningsúrræði þykja best til þess fallin að ná fram breytingum á aðstæðum fjölskyldunnar.

Nánari upplýsingar um dagskrá í Hörpu: https://www.harpa.is/dagskra/vidburdur/112-dagurinn/

 

Ánægjulegan 112 dag,

Starfsmenn barnaverndar Reykjanesbæjar