Nýjast á Local Suðurnes

Hátíðardagskrá með óhefðbundnu sniði

Þjóðhátíðardagurinn verður haldinn hátíðlegur með nokkuð óhefðbundnu sniði í Reykjanesbæ í ár vegna þeirra fjöldatakmarkana sem enn eru í gildi.

Dagskráin hefst þó að vanda með hátíðardagskrá í Skrúðgarðinum í Keflavík. Vakin er athygli á breyttri tímasetningu en dagskrá hefst kl. 11:00 svo hún renni ekki saman við skemmtidagskrá, segir í tilkynningu. Fólki er velkomið að mæta í Skrúðgarðinn en dagskránni verður einnig streymt í gegnum Facebooksíðu Víkurfrétta.

Í skrúðgarðinn marsera skátar með hátíðarfánann undir lúðrablæstri lúðrasveitar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Óskar Ívarsson, starfsmaður Umhverfismiðstöðvar, dregur þjóðfánann að húni og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri flytur honum þakkarorð. Við þetta tilefni flytur Karlakór Keflavíkur þjóðsönginn. Setningarræða dagsins er í höndum Guðbrandar Einarssonar forseta bæjarstjórnar og ræðu dagsins flytur Ingvar Eyfjörð framkvæmdarstjóri Aðaltorgs. María Tinna Hauksdóttir, nýstúdent og dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja verður í hlutverki fjallkonu og flytur ættjarðarljóð.

Í ár verður kleift, þrátt fyrir takmarkanir, að bjóða upp á skemmtidagskrá fyrir yngstu kynslóðina. Í stað þess að hún sé á einum stað eins og vant er verður boðið upp á fjórar staðsetningar, í tveimur stærstu bæjarhlutum Reykjanesbæjar, í samstarfi við öflug félagasamtök sem hafa tekið að sér að stýra dagskrá á hverjum stað. Þessi félög eru Fimleikafélag Keflavíkur, Taekwondodeild Keflavíkur, Unglingaráð Fjörheima og unglingaráð körfuknattleiksdeildar UMFN. Dagskrá á hverjum stað verður sambærileg og stendur yfir frá kl. 13-16 og því á ekki að skipta máli á hvaða stöð er farið eða klukkan hvað. Meðal þess sem boðið verður upp á á hverjum stað eru hoppukastali, tónlist, 17.júní ratleikur, fígúrur frá Leikfélagi Keflavíkur og ýmsir leikir og skemmtistöðvar. Staðsetning skemmtistöðva eru við leikskólann Holt í I-Njarðvík, Skrúðgarðinum í Njarðvík við Ytri Njarðvíkurkirkju, Skrúðgarðinum í Keflavík og við Heiðarskóla.

Opið verður í sundmiðstöðinni á þjóðhátíðardaginn þar sem einnig verður boðið upp á sérstakt sundlaugarpartý. Um kvöldið er svo boðið upp á pylsur í Fjörheimum og kvölddagskrá fyrir ungmenni með fjölbreyttri dagskrá þar sem Sprite Zero Klan verður rúsínan í pylsuendanum.

Margt fleira verður til skemmtunar á 17.júní. Boðið verður upp á kaffihlaðborð á nokkrum stöðum, fjölskyldubingó í íþróttahúsi Njarðvíkurskóla auk þess sem ókeypis aðgangur er í söfnin en glænýjar sumarsýningar eru nýopnaðar í boði í Duus Safnahúsum sem allir eru hvattir til að skoða.

Bæjarbúar eru hvattir til að halda daginn hátíðlegan í sínu hverfi, skreyta og flagga og ganga síðan, hjóla eða aka, eftir aðstæðum, á hátíðarsvæðið næst heimili sínu. Vegna fjöldatakmarkana eru foreldrar og forráðamenn beðnir um að setja börnin í forgang og leyfa þeim að njóta hátíðarhaldanna.