Nýjast á Local Suðurnes

Hafnavegur ekki tengdur við hringtorg – Ekki á skipulagi og fjárveitingu vantar

Hafnavegur verður ekki tengdur við hringtorgið við Stekk samhliða framkvæmdum við undirgöng undir Reykjanesbraut, meðal annars vegna skipulagsmála hjá Reykjanesbæ. Hættuleg gatnamót við veginn munu því verða óbreytt um sinn, utan þess að hjáleið verður gerð samhliða framkvæmdunum og umferðareyjum breytt á þann veg að vinstri beygja verður bönnuð varanlega af Hafnavegi.

Vinstri beygja verður þó ekki bönnuð af Reykjanesbraut inn á Hafnaveg og segir Svanur G. Bjarnason svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Suðurlandi, í samtali við Suðurnes.net, að það verði þó ef til vill metið í framhaldi af framkvæmdum við undirgöngin.

“Nei, held það verði erfitt að loka því varanlega fyrr en búið er að færa veginn. Þó verður þeirri beygju lokað á meðan umferð verður beint um framhjáhlaup vegna framkvæmda við undirgöngin. Það má etv. meta það í framhaldi af því hvort við getum lokað fyrir þessa beygju. Auðvitað væri það best.”

hringtorg

Tenging Hafnavegar við hringtorg við Stekk er ekki komin á skipulag hjá Reykjanesbæ

Svanur sagði einnig að skipulagsmál Reykjanesbæjar og fjárveitingar í verkefnið væru ástæður þess að Hafnavegur yrði ekki tengdur við hringtorgið að þessu sinni.

“Nei [vegurinn verður ekki tengdur við hringtorgið (innsk. blm.)], þetta er enn í skipulagsferli hjá Reykjanesbæ og auk þess er ekki komin fjárveiting í þetta verkefni.” Sagði Svanur.

Þá sagði Svanur, um miðjan júlí, að ekki stæði til að gera breytingar á öðrum gatnamótum Reykjanesbrautar á næstunni, þar sem þær framkvæmdir væru ekki á samgönguáætlun.

“Það eru engar meiriháttar breytingar á öðrum vegamótum þarna á döfinni samkvæmt samgönguáætlun. Samgönguáætlun er afgreidd á Alþingi og því undir stjórnmálamönnum komið að breyta henni ef svigrúm er til þess.” Sagði Svanur.