Nýjast á Local Suðurnes

Hafa lækkað álagningarhlutfall fasteignaskatts um 34%

Tillaga að fjárhagsáætlun sveitarfélagsins Voga var samþykkt samhljóða á síðasta fundi bæjarstjórnar. Tillagan gerir ráð fyrir að heildartekjur samstæðunnar verði 1.276 m.kr, en að heildargjöldin verði 1.213 m.kr. Niðurstaða án fjárhagsliða er 62,6 m.kr. Fjármagnsgjöld eru áætluð 39,7 m.kr., og rekstrarniðurstaðan er því áætluð 23,6 m.kr..

Fjárhagsáætlunin sem afgreidd var af bæjarstjórn er sú fimmta í röð sem E-listinn ber ábyrgð á og eins í þeim sem sem á undan komu er gert ráð fyrir hóflegum afgangi af rekstri Sveitarfélagsins Voga, segir í bókun E-lista.

“Í ljósi verulegrar hækkunnar á fasteignamati milli ára höfum við ákveðið að lækka umtalsvert fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði fyrir árið 2019.

Á yfirstandandi ári lækkaði fasteignaskattur úr 0,5% í 0,41% og verður á næsta ári 0,33% það jafngildir 34% lækkun álagningarhlutfalls á tveimur árum. Lóðarleiga, Vatnsgjald og Fráveitugjald lækkar einnig.

Við höfum í samræmi við stefnu okkar lækkað leikskólagjöld um tæp 4.000.- kr á mánuði miðað við 8 tíma vistun.
Frá og með haustönn 2019 verður Stóru-Vogaskóli heimanámslaus og lýkur þar með vinnudegi barna við lok skóladags.

Frístundastyrkur ungmenna að upphæð 25.000 verður í boði að 18 ára aldri en náði upp að 16 ára aldri áður.
Nýr heilsustyrkur eldri borgara að upphæð 25.000 verður í boði frá 67 ára aldri.

Nýtt áhaldahús verður tekið í notkun í desember 2019. Við hönnun hússins hefur verið gert ráð fyrir aðstöðu fyrir slökkvibíl frá Brunavörnum Suðurnesja. Þvottaplan fyrir fólksbifreiðar verður á lóð áhaldahússins.

Áfram verður unnið að uppbyggingu sveitarfélagsins, tvær götur verða endurbyggðar árið 2019, Kirkjugerði norður að fullu, og yfirlag endurnýjað á Stapavegi.

Fyrri áfanga göngustígs að Brunnastaðarhverfi verður lokið.
Klárað verður næsta þrep í fráveitumálum.
Hönnun stækkunar Stóru Vogaskóla hefst á árinu.

Staða Bæjarritara verður endurvakin til að styrkja stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Verkefnin bera vott um metnað í uppbyggingu bæjarfélagsins þar sem hagsmunir bæjarbúa eru hafðir að leiðarljósi.
Bæjarfulltrúar E-listans.” Segir einnig í bókuninni.