Nýjast á Local Suðurnes

Hætta viðræðum um sölu á Vatsnesvegi 8 – Notað í anda skilmála dánargjafabréfs

Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur hafnað erindi Landeigendafélags Vatnsnesbús sem hafði óskað eftir því að fá að gera kauptilboð í Vatnsnesveg 8a, sem er í eigu sveitarfélagsins, en viðræður við Landeigendafélagið hafa staðið yfir undanfarna mánuði.

Húsið, sem var byggt árið 1934, var gefið Keflavíkurbæ á níunda áratug síðustu aldar, með skilyrðum um að þar yrði starfrækt safnastarfsemi og var húsnæðið um tíma nýtt undir Byggðasafn Reykjanesbæjar. Reykjanesbær hefur ekki getað uppfyllt skilyrðin að öllu leyti undanfarin ár meðal annars vegna breyttra krafna um aðbúnað á söfnum og öðrum opinberum stofnunum.

Töluverðar umræður sköpuðust um húseignina í Facebook-hópnum Reykjanesbær – Gerum góðan bæ betri á dögunum, en íbúar virtust ósáttir við ástand hússins auk þess sem sögusagnir höfðu gengið um að selja ætti húsið til niðurrifs. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, tók þátt í umræðunum og sagði meðal annars að hvorki stæði til að selja húsið né rífa það, þrátt fyrir að sveitarfélagið ætti í viðræðum um sölu á húsinu, heldur stæði til að ná niðurstöðu um hvort og þá til hvers mætti nýta það, helst í sátt við ættingja gefenda, en það hefur ekki gengið nógu vel, að sögn Kjartans.

Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur nú falið bæjarstjóra að koma húsnæðinu í notkun í anda skilmála upphaflegs dánargjafabréfs.