Nýjast á Local Suðurnes

Hætta við að hætta við flug

Norðlendingar munu áfram geta flogið frá Akureyri í morgunsárið og lent við Leifsstöð nógu tímanlega til að fljúga þaðan beint út í heim. Forsvarsmenn Air Iceland Connect höfðu tilkynnt að þessum ferðum yrði hætt nú í vor en nú hefur verið tekin ákvörðun um að gera aðeins hlé yfir sumarið. Fyrstu ferðirnar vetrarins verða strax í byrjun október, í tengslum við Vestnorden ferðakaupstefnuna, og flogið verður fjórum sinnum í viku.

Frá þessu er greint á vefnum Túristi.is, en þar segir að sem fyrr sé flugáætlunin byggð upp í kringum morgunflugin frá Keflavíkurflugvelli og því er brottför frá Akureyri árla dags. Flogið verður aftur norður seinni partinn. Air Iceland Connect mun að þessu sinni nota flugvélar af tegundinni Bombardier Q200 í þessar áætlunarferðir en þær eru nokkru minni en Q400 flugvélarnar sem hafa verið nýttar í ferðirnar frá því að þær hófust í ársbyrjun í fyrra.

Líkt og áður hefur komið fram þá mæltist Keflavíkurflugið frá Akureyri vel fyrir meðal heimamanna fyrir norðan en fjöldi erlendra ferðamanna í fluginu stóð ekki undir væntingum. En sem fyrr segir verða minni flugvélar notaðar í ferðirnar að þessu sinni og sætanýtingin ætti því að öllu óbreyttu að verða mun betri.