Nýjast á Local Suðurnes

Hæstiréttur vísaði frá kröfum AGC á hendur Reykjanesbæ

Hæstiréttur Íslands staðfestir í gær niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness að vísa frá kröfum AGC ehf.  á hendur Reykjanesbæ, Reykjaneshöfn og Thorsil ehf. vegna Berghólabrautar 4 í Helguvík. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöður 21. október sl. að kröfur AGC ehf. væru vanreifaðar og vísaði henni frá dómi.

Með stefnu framlagðri þann 22. apríl 2015 höfðaði AGC ehf. mál á hendur Reykjaneshöfn, Reykjanesbæ og Thorsil ehf. og krafðist aðallega viðurkenningar á leigurétti til Berghólabrautar 4 í Helguvík. Aðrar kröfur AGC ehf. fólu í sér útfærslu á aðalkröfu um viðurkenningu á leigurétti.
Krafa AGC ehf. var rökstudd á þeim grundvelli að komist hefði á bindandi loforð um lóðarúthlutun í Helguvík á milli félagsins og Reykjaneshafnar. Að mati AGC ehf. var því Reykjaneshöfn og/eða Reykjanesbæ óheimilt að úthluta lóðinni til Thorsil ehf. Reykjaneshöfn, Reykjanesbær og Thorsil ehf. kröfðust aðallega frávísunar á kröfum AGC ehf. en til vara sýknu.

Krafa um frávísun var rökstudd með vísan til þess að AGC ehf. hefði ekki lögvarða hagsmuni af kröfu sinni, þar sem lóðinni hefði verið úthlutað til Thorsil ehf. og um hana verið gerður lóðarleigusamningur. Þá var einnig byggt á því að ekki væri röklegt samhengi á milli þess sem krafist væri, þ.e.a.s. viðurkenningar á leigurétti á grundvelli brigðaréttar. Krafa um frávísun var jafnframt studd þeirri röksemd að þar sem lóðarúthlutun fæli í sér stjórnvaldsákvörðun væri það ekki á færi dómstóla að taka afstöðu til hennar, líkt og krafa AGC ehf. var sett fram.

Með úrskurði 21. október 2015 vísaði Héraðsdómur Reykjaness kröfum AGC ehf. frá dómi á grundvelli þess að kröfur AGC ehf. væri vanreifaðar, þar sem samhengi á milli þess sem krafist væri á málsástæðna skorti. Þá var einnig vísað til þess að á skorti nauðsynlega lögvarða hagsmuni, þar sem krafa AGC ehf. miðaði ekki að því að hnekkja fyrri úthlutun til Thorsil ehf. heldur fæli í sér lögspurningu til dómsins. Þá var AGC ehf. dæmt til þess að greiða Reykjanesbæ og Reykjaneshöfn hvort um sig kr. 250.000,- í málskostnað.

Með dómi í máli nr. 759/2015, sem kveðinn var upp í gær, staðfesti Hæstiréttur Íslands niðurstöðu héraðsdóms með vísan til þess að kröfugerð AGC ehf. í málinu feli eingöngu í sér beiðni um lögfræðilegt álit dómstóla. Þá var AGC ehf. dæmt til að greiða gagnaðilum kærumálskostnað fyrir Hæstarétti.