Nýjast á Local Suðurnes

Hægt að spara allt að 30% með því að skipuleggja innkaupin rétt

Neytendavakt Skuldlaus.is gerði í vikunni verðkönnun á matvöru í verslunum á Suðurnesjum. Könnunin sýnir að það má spara allt að 30 % með því að skipuleggja innkaup rétt.

“Ég hafði aldrei séð verðkönnun á milli verslana í Reykjanesbæ og ákvað að láta vaða og gera verðkönnun á einfaldri matarkörfu. Ég fór í stórverslanirnar þrjár annars vegar og litlu verslanirnar fjórar sem opnar eru fram á kvöld. Það má deila um innihald ímynduðu matarkörfunnar en þetta var bara einföld könnun hjá mér til að sjá hver munurinn er á milli verslana í Reykjanesbæ. Ég gerði til dæmis ekki verðkönnun á grænmeti og ávöxtum né á kjöti og fiski. Það fær að bíða betri tíma.” Segir Haukur Hilmarsson hjá Skuldlaus.is

Niðurstaðan úr könnuninni var sú að Bónus var ódýrust lágvöruverðsverslananna þriggja en þar kostaði matarkarfan 5.428 krónur. Þar á eftir var Kaskó en matarkarfan þar var með 6,5% hærra verð en það lægsta. Nettó var dýrust með 8,6% hærra verð en það lægsta.

Verslunin Kostur í Njarðvík var með ódýrustu matarkörfu minni verslananna. Matarkarfan þar kostaði 7.183 krónur sem er 19,3% dýrara en ódýrasta verð allra verslana í könnuninni. Í  Samkaup/Strax kostaði karfan 7.912 krónur og í Hólmgarði 8.778 krónur. 10-11 rekur lestina með 9.028 króna matarkörfu sem er rúmlega 28% hærra verð að það ódýrasta í Reykjanesbæ.

Það skal tekið fram að þetta var mjög einföld verðkönnun og hefur þann tilgang að vekja fólk upp og leiða hugan að því hvað við kaupum og hvar. Fólk verslar eftir eigin smekk og því getur verðmunurinn orðið annar en hér er birtur þegar matarkarfan inniheldur aðrar vörur. Það er því mikilvægt að hver og einn geri verðkönnun fyrir sig. Einnig eru ekki vörur á borð við kjöt, fisk og ávexti og grænmeti í þessari könnun. Slíkar vörur hafa mismunandi gæði og einnig mismunandi geymsluþol. Slík könnun fær að bíða betri tíma.

Öll verð eru samkvæmt hillumerkingum í viðkomandi verslunum og eru birt hér án ábyrgðar. Þessa könnun og fleiri má skoða á Neytendavakt Skuldlaus.is.

Í töflunni hér að neðan má sjá vörurnar og verðmun á milli verslana.

verðkönnun-rnb-okt-2015