Nýjast á Local Suðurnes

Grunnskólanemendur kynntu hvernig þau vilja sjá þróun Keflavíkurtúns

Nemendur í 8.Í.H. kynna hér sínar hugmyndur. Grashóll kom þar sterkur inn sem bæði væri hægt að nýta sem skemmtilegt leiksvæði að sumri jafnt sem vetri. - Mynd: Reykjanesbær

Fulltrúar sex bekkja úr Holtaskóla, Myllubakkaskóla og Heiðarskóla kynntu í gær hugmyndir sínar um þróun svæðisins í kringum Duus Safnahús í Bíósalnum. Hugmyndavinnan tengist sýningunni „Keflavík – verndarsvæði í byggð?“ sem nú stendur yfir í Gryfjunni.

Nemendurnir í bekkjunum sex fóru að venja komur sínar á sýninguna í byrjun nýs árs og kynntu sér verkefnið. Þau fengu að heyra sögu Keflavíkur í örstuttu máli og unnu svo með hugmyndir sínar í skólunum. Unnið var út frá spurningunni „Hvað á að gera við Keflavíkurtún?“ Nemendur í Holtaskóla voru í 6. bekk, nemendur í Heiðarskóla í 7. bekk og nemendur Myllubakkaskóla í 8. bekk.

Margar skemmtilegar hugmyndir komu fram í kynningum nemenda og ýmsir sameiginlegir fletir í þeim. Þannig nefndu margir áhuga á að sjá útivistarsvæði á túninu þar sem byggt væri vistvænt úr tré, jafnvel í anda útivistarsvæða Kjarnaskógar og Úlfljótsvatns. Flestir voru á því að varðveita fornminjar á svæðinu og nýta í þá uppbyggingu sem verður. Kaffihús voru einnig nefnt, sem jafnframt höfðu fengið nöfn eins og Gamli bær og Kaffi Tóftir. Minjasafn var einnig nefnt og safn smáhýsa sem myndu rúma allskyns starfsemi, ekki ósvipað og í Árbæjarsafni. Verslunarmiðstöð og ýmislegt fleira skemmtilegt var einnig nefnt og allt útskýrt með myndum.

Í máli Kjartans Más Kjartanssonar bæjarstjóra til nemenda kom fram að á næstu vikum muni sérstakur verkefnahópur vinna að því að útbúa tillögu um að svæðið verði formlega gert að verndarsvæði í byggð. Þar verði m.a. byggt á þeim hugmyndum sem koma fram á gulum miðum frá sýningargestum og hugmyndum nemendanna.

„Tillagan verður síðan kynnt almenningi á opnum fundi og líka fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar og Minjastofnun Íslands. Ef að öllum lýst vel á verður það lagt til við mennta- og menningarmálaráðherra að lýsa svæðið formlega sem „Verndarsvæði í byggð“ og þá getið þið stolt sagt frá því að þið hafið lagt ykkar af mörkum.“

Búið er að greina leifar íbúðarhúss í túninu frá þremur tímabilum svo það virðist sem byggt hafi verið ofan á fyrri grunna. Grjót og torf hafa verið greind. Einnig hafa greinst munir innanhúss og á víð og dreif um túnið. Vonir standa til að uppgröftur á Keflavíkurtúni geti hafst í maí næstkomandi.

Sýningin stendur til 15. apríl og er áhugasömum að kostnaðarlausu. Íbúar og annað áhugafólk er hvatt til að taka þátt í mótun framtíðar í Reykjanesbæ. Hér má finna nánari upplýsinar um sýninguna.