Nýjast á Local Suðurnes

Grjótgarðar buðu best í vetrarþjónustu utan við haftasvæði flugverndar

Mynd: Facebook/Grjótgarðar ehf

Verktakafyrirtækið Grjótgarðar áttu lægsta tilboð í vetrarþjónustu á tilgreindum svæðum á Keflavíkurflugvelli, en verkið felst í snjóhreinsun og hálkueyðingu gatnakerfis, göngustíga og bílastæða.

Verkefnið er umfangsmikið, en verktakinn skal vera til taks allan sólarhringinn og alla daga á uppgefnum samningstíma sem er um 7 mánuðir á ári.

Samningurinn gildir í tvö og hálft ár með möguleika á framlengingu tvisvar sinnum um eitt ár í senn.

Útboðið var unnið í samvinnu við Ríkiskaup og hljóðaði tilboð fyrirtækisins upp á 74.973.000 krónur. Tvö önnur fyrirtæki skiluðu inn tilboðum í verkið, Ellert Skúlason sem bauð tæplega 98 milljónir króna og Íslenska gámafélagið sem bauð rúmlega 118 milljónir króna.