Nýjast á Local Suðurnes

Grindvíkingar útvega Dalvíkingum rafmagn

Grindavíkurbær brást vel við bón um að lána rafstöðvar norður á land eftir að óveðrið á sem skall á svæðið á dögunum gerði heilu byggðarlögin rafmagnslaus.

Þetta kemur fram í færslu á Facebook síðu björgunarsveitarinnar Þorbjörns, en færsluna má sjá í heild hér fyrir neðan:

Við erum svo heppin að eiga góða að hér í Grindavík. Þegar ljóst var að mikil þörf var á stórum rafstöðvum á Norðurlandi óskuðum við eftir því að fá lánaða mjög stóra rafstöð hjá Grindavíkurbæ sem notuð er til þess að keyra varafl inn á stofnanir bæjarins í neyð. Vel var tekið í beiðnina og lagði sveitin því fljótlega af stað norður með þrjár rafstöðvar, þar af eina svo stóra að hún vegur 2 tonn.

Ákveðið var að senda hópinn innarlega í Svarfaðadal þar sem stóra rafstöðin var tengd við risa stórt kúabú. Vel gekk að koma rafmagni á búið svo hægt væri að mjólka og bjarga ábúendum frá frekara tjóni. Því næst var farið með smærri stöðvarnar á aðra bæi og aðstoðað við að koma rafmagni þar á. Eftir stutta hvíld aðstoðaði hópurinn svo starfsmenn Landsnets og Rarik við að berja ís af raflínum og reisa við brotna staura.

Þá fór einnig hópur frá okkur norður til þess að aðstoða við leitina af unga piltinum sem fórst í Eyjafirði. Þar að auki var mannskapur frá okkur í aðgerðarstjórn á Norðurlandi.

Núna er allur okkar mannskapur kominn heim en með góðfúslegu leyfi Grindavíkurbæjar er rafstöðin góða ennþá að framleiða rafmagn fyrir Dalvík og Svarfdælinga. Hún fær að vera í því verkefni þar til raforkumál komast í lag aftur 🙂