Nýjast á Local Suðurnes

Grindavík eina sveitarfélagið á Suðurnesjum sem auglýsir á samfélagsmiðlum

Aðeins um 15% birtingafjár íslenskra fyrirtækja og stofnana rennur til vefmiðla, sem er mun lægra hlutfall en í öðrum löndum, þetta kemur fram í samantekt Fjölmiðlanefndar sem birt var fyrr í haust.

Athygli vekur að aðeins 18% allra þeirra vefauglýsinga sem keypt eru í gegnum íslensku birtingahúsin eru á erlendum miðlum á borð við Google og Facebook sem er mun lægra hlutfall en víða í nágrannalöndum okkar. Fjölmiðlanefnd nefnir sem dæmi að í Danmörku renni yfir helmingur þess fjármagns sem varið er í netauglýsingar til erlendra miðla.

Auglýstu Sjóarann síkáta með góðum árangri

Grindavíkurbær er til að mynda eina sveitarfélagið á Suðurnesjum sem hefur keypt auglýsingar á samfélagsmiðlum en tæp 4% af auglýsingafé bæjarins á þessu ári hefur verið notað í kaup á auglýsingum á Facebook.

“Við auglýstum á Facebook í fyrsta skipti núna í vor. Þær auglýsingar voru allar í tengslum við Sjóarann síkáta, bæði “boost” á staka pósta sem og á síðuna sjálfa til að stækka áheyrendahópinn.” Sagði Siggeir Ævarsson upplýsingafulltrúi Grindavíkurbæjar við Local Suðurnes.

Siggeir var ánægður með árangurinn af auglýsingunum á Facebook: “Já, Facebook gefur manni upp mjög nákvæmar tölur af öllum auglýsingum. Við vorum mjög sáttir, stakar auglýsingar náðu til mjög margra og heildarfjöldi þeirra sem líkar við síðuna rauk upp, og það urðu ekki mikil afföll eftir að hátíðinni lauk. Við munum örugglega nota þetta aftur næst.” Sagði Siggeir.

Önnur sveitarfélög á Suðurnesjum hafa ekki auglýst á samfélagsmiðlum

Local Suðurnes sendi fyrirspurn á öll sveitarfélögin á Suðurnesjum og samkvæmt svörum frá þeim hefur ekkert annað sveitarfélag en Grindavíkurbær keypt slíkar auglýsingar. Það má taka fram að það sveitarfélag sem hefur verið hvað fremst í að boða opna og gegnsæja stjórnsýslu, Reykjanesbær svaraði ekki fyrirspurninni.