Nýjast á Local Suðurnes

Greiða út rúmar fimm milljónir króna vegna hækkunar nefndarlauna

Samþykkt var á fundi bæjarráðs Garðs að hækka mánaðarlaun kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn Garðs um 26%, en um er að ræða hækkun sem er afturvirk og gildir frá 1. janúar 2017. Vegna þessa samþykkti bæjarráð á fundi sínum þann 29. júní síðastliðinn viðauka við fjárhagsáætlun að fjárhæð kr. 5.300.000. Tekið er fram í bókun bæjarráðs að viðaukinn hafi ekki áhrif á rekstrarniðurstöðu fjárhagsáætlunar.

Þróun launakjara kjörinna fulltrúa í Garði hefur fylgt þróun þingfararkaups, sem ákvarðað er af Kjararáði og hækkaði um rúm 44% þann 1. nóvember 2016. Þessi mál hafa verið til skoðunar undanfarin missri í Garði og lagði bæjarráð til að í stað þess að laun opinberra fulltrúa fylgi þróun þingfarakaups muni breytingar á launakjörum kjörinna fulltrúa taka mið af þróun launavísitölu.