Nýjast á Local Suðurnes

Góður granni er áhrifaríkasta afbrotavörnin – Svona er ferlið við að setja upp nágrannvörslu

Mynd: Reykjanesbær - Nágrannavarsla er í Birkidal

Reykjanesbær hefur um árabil gert íbúum kleift að standa að nágrannavörslu í íbúðahverfum í sveitarfélaginu. Í nágrannavörslu gera íbúar með sér samkomulag um eðli nágrannavörslunnar í hvert sinn.

Lágmarks nágrannavarsla felur í sér að íbúi taki að sér að skrá grunsamlega hegðun, bifreiðanúmer og lýsingu á fólki og tilkynni til lögreglu með því að hringja í símanúmerið 112.

Góður granni getur því til viðbótar m.a. tekið að sér að:

  • Fylgjast með að póstur safnist ekki upp í bréfalúgu
  • Setja sorp í ruslatunnu yfirgefna hússins
  • Leggja bíl í heimreiðina við húsið
  • Draga frá og fyrir gluggatjöld í gluggum
  • Kveikja og slökkva ljós

Ekki er ætlast til að þátttakendur taki að sér löggæsluhlutverk eða grípi inn í atburðarásina. Nágrannavarslan ein nægir ekki til að upplýsa og uppræta innbrot/skemmdir. Lögreglan vinnur að afbrotavörnum, rannsóknum og handtökum með góðri aðstoð íbúa á hverju svæði.

Ferlið
Ferlið hefst á því að íbúar safna saman undirskriftalista allra í götunni og sækja um að verða Nágrannavörslugata

Íbúar safnast saman í götu sinni og fá afhenda tvo límmiða með merki nágrannavörslunnar til að líma á rúður að framan og aftanverðri húseign sinni. Skiltum á stærð við umferðarskilti verður komið fyrir í götunni (sjá mynd af skilti á forsíðu). Fulltrúar frá lögreglu og Reykjanesbæ mæta og afhenta íbúum skilti og límmiðina.

Góður granni er áhrifaríkasta afbrotavörnin. Staðreyndin er sú að áhugasamir nágrannar sem vinna með lögreglu geta orðið sterkasta aflið gegn afbrotum.

Vonast til þess að hægt verið að útvíkka nágrannavörsluverkefnið til fleiri samfélagsverkefna í framtíðinni. Nágrannar standi ekki aðeins saman í að sporna gegn innbrotum og skemmdarverkum heldur líka í baráttunni gegn einelti, vímuefnaneyslu unglinga og umferðarslysum svo fátt eitt sé nefnt.