Nýjast á Local Suðurnes

Gjaldskrá strætó hefur verið ákveðin – Árgjald fyrir börn verður 2000 krónur

Reykjanesbær hefur samþykkt gjaldskrá fyrir strætó, en gjaldtakan hefst í haust. Miklar umræður hafa skapast um gjaldtökuna í Facebook-hópnum Reykjanesbær – Gerum góðan bæ betri, þar sem skiptar skoðanir eru um gjaldtökuna, á annað hundrað ummæli hafa verið rituð við færslu um málið og virðast flestir vera á þeirri skoðun að hófleg gjaldtaka sé hið besta mál.

Í umræðunum sagði Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar að gjaldið yrði hóflegt, eða 2.000 krónur fyrir börn á grunnskólaaldri á ári. Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Umhverfissviðs Reykjanesbæjar vildi ekki upplýsa um gjöld fyrir fullorna eða verð á stökum ferðum, en sagði í svari við fyrirspurn Suðurnes.net að sveitarfélagið myndi senda frá sér tilkynningu eftir helgi.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks voru mótfallnir gjaldtökunni þegar málið var tekið fyrir í bæjarráði og kom fram í bókun þeirra að ávinningur af gjaldtöku væri lítill sem enginn og myndi sveitarfélagið líklega ekki ná inn tekjum fyrir kostnaði við uppsetningu á greiðslukerfi sem þarf til.