Nýjast á Local Suðurnes

Gísli Marteinn og strætóbílstjóri koma við sögu í Föstudagspistli Árna Árna

Réttir eru úrelt fyrirbæri nú bjóða ferðaskrifstofurnar upp á skemmtilega nýung. Hægt er að leigja fulla rútu af ferðamönnum, hleypa þeim lausum á afgirt svæði og sjá hver nær að halda lengst í sér. Þessi nýbreytni hefur verið að sækja verulega á og nýtur mikilla vinsælda bænda víða um land, enda brýtur það upp daginn að sjá ferðamennina kasta af sér og svo er þetta bara svo góður og lífrænn áburður.

local

Árni Árnason

Gísli Marteinn virðist vera vonarstjarnan endalausa hjá RÚV og er væntanlegur aftur á skjáinn í haust. Ég hef gaman af Gísla, en burt séð frá honum þá er gaman að sjá hvað sama fólkið festist í þessum geira. Það er nánast ekki hægt að lesa fréttir né hafa spurninga- eða spjallþátt án þess að Logi Bergmann eigi hlut. 365 eru að vísu snillingar í þessu. Gestir í flestum þáttum þeirra eru oft á tíðum bara gengið á kaffistofunni. Það er svona hringrás á þessu. Ef Jói Fél gefur út bók þá er hann í viðtali í Íslandi í dag og svo þátturinn hans í framhaldinu. Sama má segja um Rikku og mér var skemmt þegar hin yndislega Eva Hermanns var gestur í nýjum grillþætti, þar sem þáttarstjórnandinn sagði að þátturinn hennar Evu, sem eldar líka, væri uppáhaldsþátturinn. Þetta er svona skemmtilegur heilaþvottur til að halda þjóðinni fyrir framan viðtækin.

Ótrúlegasta frétt vikunnar var þessi af eldri borgurunum sem fóru saman í sumarbústað. Sem er kannski ekki áhugavert, nema það var aðeins fengið sér í tánna eins og okkur íslendingum er von og vísa þegar við skreppum í sveitina. En allt í einu barst lögreglu símtal um látinn ferðamann, dökkan á hörund í sumarbústað. Þegar lögreglu bar að garði voru þar tveir eldri menn, annar dauður áfengisdauða og vinur hans sem sá bara svartan látnann ferðamann. Spurning að hækka aðeins ellilífeyririnn svo okkar elskulegu eldri borgarar þurfa ekki að brugga einhvern viðbjóð til að gera sér glaðan dag.

Mannrán í Vonarstræti, gæti verið næsta íslenska kvikmyndin í svona ívafi Speed. Nema að strætóbílstjórinn er skúnkurinn. Já strætóbílstjóri svipti fjölskyldu frelsi í vikunni með að meina þeim útgöngu úr vagninum. Það þarf að stílfæra handritið aðeins betur þar sem þessi hressi bílstjóri hugsaði ekki út í það að aðrir farþegar þyrftu að komast leiða sinna, inn og út úr vagninum. En ég skil þetta ekki, ef Stætó er ekki að týna fólki þá eru verið að halda fólki gegn þeirra vilja í vögnunum, þarf ekki að finna milliveginn í þessari þjónustu ?

Gamli torfbærinn Glaumbær í Skagafirði er vinsæll áningarstaður ferðamanna og nú liggur fyrir að það þarf að hleypa inn í skömmtum. Ég var þarna á ferðinni í vikunni og það kostar 1.200 kr. inn í bæinn. Í fréttum kom fram að á dögunum komu 600 manns á einum degi. Það segir okkur að torfbærinn þenjaði 720.000 krónur á einum degi. Það væri athyglisvert að sjá heildartekjurnar á ársgrundvelli. Fyrir mitt leyti tel ég 1.200 kr. of mikið, fjögra manna fjölskylda greiðir 4.800 kr. bara fyrir að skoða á þessum eina stað. Hvað kostar þá að koma víða við á ferðinni um landið? Ég var samt gapandi hissa þegar við fjölskyldan komum við í Þingeyrarkirkju, elstu steinkirkju landins. Þar var allt læst og til að fá að skoða kirkjuna greiddum við 4.000 kr. – sjálf þjóðkirkjan farin að græða á ferðaþjónustunni. Það er ekki nóg að stór hluti þjóðarinnar greiði til þjóðkirkjunnar og keyrt er á að kirkjur landsins séu sameign þjóðarinnar og að kirkjan standi öllum opin – en rífið samt upp veskin elskurnar

Stjórn Landsbankans hefur örugglega komist í bruggtækin hjá félögunum í sumarbústaðnum. Um það bil 20 mínútum eftir hrun á að reisa höfuðstöðvar fyrir 8 milljarða sem verða örugglega 10 milljarðar þar sem íslendingar eru ekkert spés þegar kemur að kostnaðaráætlunum. Margir mætir þingmenn hafa mótmælt harðlega fyrirhuguðum áformum og þá hefur forsætisráðherra einnig tjáð sig um málið. Almenningur í landinu tók á sig höggið og nú eiga viðskiptavinir Landsbankans að halda áfram að borga. Ríkið á stóran hluta í bankanum, stjórnarþingmenn og forsætisráðherra eru á móti framkvæmdum, hvað er þá vandamálið, ýtum þessu út af borðinu. Fyrir mér er þetta spurning um siðferði, það er of stutt frá hruni þar sem erlendir fjarfestar og almenningur töpuðu gríðarlegum fjárhæðum á bankanum sem lepja ennþá sárin.