Nýjast á Local Suðurnes

Gera prófanir sem miða að því að minnka ónæði af flugumferð yfir byggð

Isavia hefur ákveðið að setja upp rauntímamæla sem mæla hljóðmengun frá flugumferð, til þess að íbúar á Suðurnesjum geti betur fylgst með hljóðmengun frá flugumferð. Þetta kemur fram í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í tilefni af bókun bæjarráðs Reykjanesbæjar varðandi ónæði sem íbúar sveitarfélagsins verða fyrir vegna flugumferðar yfir sveitarfélagið.

Isavia hefur átt nokkra góða fundi með fulltrúum Reykjanesbæjar og notendum Keflavíkurflugvallar til þess að kynna þessar framkvæmdir og áhrif þeirra. Samstarfið hefur verið gott og allir hafa reynt sitt besta til þess að lágmarka flug yfir byggð eins og kostur er og lágmarka hljóðmengun í þau skipti sem fljúga þarf yfir byggð. Í vor voru til dæmis þau tilmæli send flugfélögum að nota hávaðamildandi aðferðir við brottflug yfir íbúabyggð meðal annars með því að beita hreyflum á ákveðinn hátt. Nú er gott tækifæri til þess að fara yfir hvernig gengið hefur og ef þörf er á, að skerpa á þessum aðgerðum bæði við starfsfólk Isavia og notendur flugvallarins.

Þegar rauntímamælarnir hafa verið settir upp verður hægt að fylgjast með mælingum þeirra á vef Isavia. Þangað til rauntímamælarnir verða settir upp hefur Isavia tekið á leigu hljóðmæli sem félagið mun nota til þess að fylgjast betur með hljóðmengun frá flugumferð og gera prófanir sem miða að því að minnka ónæði af völdum flugumferðar yfir byggð. Ef þessar prófanir skila árangri verður hægt að gera breytingar á flugferlum í takt við þær. Segir meðal annars í tilkynningu Isavia.