Nýjast á Local Suðurnes

Ganga til minningar um Mörtu Guðmundu

Hin árlega Mörtuganga verður farin þriðjudaginn 9. maí næstkomandi. Hefðbundið skólastarf verður lagt til hliðar og fara allir nemendur skólans í göngu til minningar um Mörtu Guðmundu Guðmundsdóttur kennara en hún var fædd þann 29. apríl 1970.

Marta var mikill göngugarpur og fór meðal annars í ofurgöngu yfir Grænlandsjökul eftir að hún greindist veik af krabbameini.  Minningu Mörtu viljum við halda á lofti og er þessi árlega gönguferð skólans hluti af því.

Marta var Grindvíkingur, dóttir Guðmundar Finnssonar og Höllu Ágústsdóttur. Hún lét eftir sig eina dóttur, Andreu Björt Ólafsdóttur, f. 1995. Marta hafði kennt við skólann í nokkur ár er hún greindist með krabbamein og lést hún 6. nóvember árið 2007 aðeins 37 ára gömul. Hún var íþróttakona, spilaði meðal annars körfubolta og eftir því sem best er vitað spilaði hún tvo A landsliðsleiki, tvo B landsliðsleiki, einn U20 landsliðsleik og þrjá U18 landsliðsleiki.

Í fyrra var búið til ákveðið skipulag á göngunni og fastsett hvert árgangarnir ganga.

Skipulagið er eftirfarandi;
• 1. bekkur – Þórkötlustaðarhverfi
• 2. bekkur – Hópsneshringurinn
• 3. bekkur – Gálgaklettar
• 4. bekkur – Hringur í kringum Þorbjörn
• 5. bekkur – Húsafell
• 6. bekkur – Rásin, í áttina að kirkjugarðinum á Stað
• 7.-10. bekkir – Val um fjórar mismunandi leiðir; Prestastígur, Skógfellavegur, Golfvöllur-Bláa lónið-Grindavík eða Hesthellir.