Nýjast á Local Suðurnes

Gámaþjónustan bauð best í sorphirðu – Sorpgjöld verða hækkuð

Stjórn Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja hefur ákveðið að ganga til samninga við Gámaþjónustuna um sorphirðu á Suðurnesjum, en verkið var boðið út á dögunum. Gámaþjónustan bauð 128.739.150 króna í verkefnið og mun samningurinn gilda í eitt ár.

Útboðið miðaði við að sorphirða á almennu sorpi frá íbúðum á Suðurnesjum verði á 14 daga fresti og hirðing endurvinnsluefnis verði á 28 daga fresti. Nýir þjónustusamningar við verktaka taka gildi hinn 1. febrúar 2018.

Þá verða breytingar í sorpmálum á Suðurnesjum á sama tíma, þegar tekin verður upp flokkun við heimili. Þá þarf að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar og munu þessi verkefni hafa í för með sér töluverðan kostnað og samþykkti stjórn fyrirtækisins að hækka sorpgjöld á íbúðaeigendur á Suðurnesjum 7% fyrir árið 2018 til að mæta þessum kostnaði.