Nýjast á Local Suðurnes

Fyrrverandi sviðsstjóri hjá Reykjanesbæ dæmdur fyrir kynferðisbrot – Annað mál í rannsókn

Karlmaður á sextugsaldri, fyrrverandi sviðsstjóri hjá Reykjanesbæ, hefur verið dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fyrrum stjúpdóttur sinni. Annað mál gegn manninum, kynferðisbrot gegn ungum dreng, er á borði lögreglu, en um er að ræða endurupptöku máls sem rannsakað var árið 2014 en þótti ekki líklegt til sakfellingar á þeim tíma.

Maðurinn var dæmdur fyrir að hafa brotið á fyrrum stjúpdóttur sinni en í dómnum kemur fram að maðurinn hafi strokið henni innan og utan klæða, klórað og strokið rass hennar og sett fingur í endaþarm. Þá kyssti hann hana blautum kossi á enni, kinn og læri áður en hann lagðist þétt upp að henni svo hún fann fyrir kynfærum hans við rassinn.

Auk fangelsisvistarinnar er manninum gert að greiða stúlkunni bætur upp á 1,8 milljónir króna auk málsvarnarlauna verjanda síns og stúlkunnar.

Þá var maðurinn kærður í október 2014 fyrir kynferðisbrot gegn ungum manni sem var í 8. bekk í grunnskóla þar sem hinn dæmdi gegndi stöðu skólasálfræðings.  Kærandinn var skjólstæðingur sálfræðingsins þegar hann var skólasálfræðingur og áttu brotin að hafa átt sér stað um áratug áður en kæran barst. Það mál er nú á borði lögreglu eftir að ungi maðurinn fékk málið endurupptekið á dögunum.

Maðurinn er menntaður sálfræðingur og hefur unnið mikið með börnum, bæði á leikskóla- og grunnskólaaldri, hjá Reykjanesbæ, Reykjavíkurborg og ríkinu.

Dóminn í heild sinni má sjá hér.