Nýjast á Local Suðurnes

Fræsa og malbika: Tafir á umferð á Njarðarbraut og Reykjanesbraut á miðvikudag

Til stendur að malbika Njarðarbraut, frá Grænásbrekku að verslunarkjarnanum við Fitjar á morgun miðvikudag og má búast við að einhverjar tafir verði á umferð á meðan á malbikun stendur.

Einnig verður töluvert um malbikunarframkvæmdir á Reykjanesbraut, en á morgun er stefnt að því að fræsa og malbika tvær akreinar á Reykjanesbraut vestan megin við gatnamót við Grindavíkurveg, í átt að Reykjavík. Annari akreininni verður lokað í einu og umferðahraði lækkaður framhjá vinnusvæðinu og má búast við lítilsháttar umferðartöfum.

Áætlað er að framkvæmdirnar standi yfir milli kl. 8:00 til kl. 16:00.

Einnig er stefnt á að fræsa öxl frá Grindavíkurvegi og að næstu gatnamótum, í átt að Keflavík. Akreininni verður lokað á meðan og umferðahraði lækkaður framhjá vinnusvæðinu og má búast við lítilsháttar umferðartöfum.

Áætlað er að framkvæmdirnar standi yfir milli kl. 11:00 til kl. 18:00

Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin. Vinnusvæðin eru þröng og menn og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum.