Nýjast á Local Suðurnes

Frá Ritstjóra: Óþörf íbúakosning gæti haft áhrif síðar

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með umræðu um íbúakosningu hér í Reykjanesbæ sem fram fer dagana 24. nóvember til  4. Desember næstkomandi. Eðli málsins samkvæmt skiptist fólk í tvær fylkingar, önnur hefur umtalsvert hærra en hin í nafni umhverfisverndar og íbúalýðræðis á meðan lítið heyrist til þeirra sem hlyntir eru framkvæmdum, enda hefur bæjarstjórn gefið það út að kosningin muni ekki hafa áhrif á ákvarðanir varðandi skipulag og framkvæmdaleyfi.

Það er þó nauðsynlegt fyrir þá sem styðja uppbyggingu að mæta á kjörstað til að sýna í verki að þeir styðji núverandi stefnu meirihlutans. Borið hefur á í þeim hópi að ekki sé nauðsynlegt að mæta á kjörstað þar sem niðurstaðan breyti í engu ákvörðun bæjarstjórnar um veitingu framkvæmdaleyfis.

Helguvík - uppbygging

Frá framkvæmdum í Helguvík

 

Það gæti hins vegar mögulega verið rangt mat þar sem gera má að því skóna að niðurstaða kosninganna komi til með að hafa áhrif á stefnumótun framtíðarinnar varðandi uppbyggingu Helguvíkur og aðliggjandi svæðis þar sem meðal annars gert er ráð fyrir flugsækinni þjónustu.

Vissulega er það rétt að flugstöðin og það sem henni fylgir hefur virkilega verið mikil lyftistöng fyrir samfélagið á Suðurnesjum. En hvernig yrði hún skilgreind með tilliti til mengunar þar sem flugvélar fulllestaðar taka á loft með 15 mínutna millibili allan sólahringinn? Mögulega sem stóriðja. Og má því ekki gera ráð fyrir að næsta íbúakosning gæti orðið um að færa flugvöllinn lengra frá byggð, til dæmis í Hvassahraun í samræmi við niðurstöðu Rögnunefndar? Og má þá ekki líka búast við að þrýst verði á íbúakosningu um þann flutning?

Því  er nauðsynlegt að nýta rétt sinn og kjósa sama hvort menn séu með eða á móti stóriðju og þeirri atvinnuuppbyggingu sem henni fylgir, því kosningin gæti haft áhrif sé litið til framtíðar, þó hún hafi ekki áhrif á ákvörðun bæjarstjórnar að þessu sinni.